136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

ástæða Breta fyrir að beita hryðjuverkalögum á Ísland.

[14:33]
Horfa

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegur forseti. Mér finnst það kannski liggja fyrir sem aðalatriði í þessu máli að starfsemi atvinnufyrirtækja á fjármálamarkaði er á ábyrgð fyrirtækjanna sjálfra. Þetta eru einkafyrirtæki og það sem þau taka sér fyrir hendur innan ramma laganna er á þeirra ábyrgð en ekki ríkisvaldsins í þeim löndum þar sem þau starfa.

Sú ákvörðun íslensku ríkisstjórnarinnar og Alþingis að grípa inn í starfsemina með því að yfirtaka hinn innlenda þátt íslensku bankanna var ekki gerð af þeim ástæðum að íslenska ríkisstjórnin teldi sig þurfa að taka ábyrgð á starfsemi bankanna, heldur til þess að geta haft hér innan lands starfandi greiðslumiðlunarkerfi og bankastarfsemi. Án þess væri íslenska þjóðfélagið óstarfhæft. Það var neyðarráðstöfun fyrir íslenska hagsmuni að grípa inn í það ferli.

Það verður síðan samkomulagsatriði milli eigenda nýju íslensku bankanna og erlendu kröfuhafanna á gömlu bankana um skilin á milli nýju og gömlu bankanna. Þar er ekki um að ræða að íslensk stjórnvöld séu að grípa inn í til þess að hlunnfara erlenda kröfuhafa. Það verður unnið að málinu með því markmiði að ná samkomulagi um þessi skil. Það gengur ekki upp öðruvísi. Við getum ekki lokið málinu án samkomulags.

Það sem mér finnst kannski vera óvarlegt eru ummæli hv. frummælanda sem spurði ráðherrann hvort hægt væri að koma sér undan því að borga. Okkur hefur verið borið á brýn að við ætluðum ekki að borga og það hefur verið borið til baka. Við megum ekki, að mínu viti, taka þannig til orða að það sé hægt að skilja ummæli okkar hér á Alþingi á þann veg að við ætlum að koma okkur undan því að borga það sem okkur ber. Það ætlum við okkur ekki að gera, (Forseti hringir.) virðulegur forseti.