136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

stjórnarskipunarlög.

286. mál
[17:29]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Sjálfstæðisflokknum er kennt um allt þessa dagana. Framsókn fór úr ríkisstjórn fyrir tæpum tveimur árum eftir að hafa setið þar í 12 ár en nú koma þingmenn Framsóknar hingað upp og tala eins og Sjálfstæðisflokkurinn hafi einn ráðið í áratugi. (Gripið fram í.) Gefið er í skyn í umræðunni að Sjálfstæðisflokkurinn hafi staðið í vegi fyrir öllum breytingum á stjórnarskránni.

Ég rakti í máli mínu áðan margar breytingar á stjórnarskránni sem flokkarnir hafa komið sér saman um og við höfum tiltölulega nýlega innleitt í stjórnarskrána eftir samráð allra flokka. Það er eins og menn vilji ekki heyra það sem ég vek athygli á hér. Það sem er óvanalegt við þetta mál er að fullkominn skortur er á samráði milli stjórnmálaflokkanna um hvernig breyta á grundvallarlögum í landinu, hvernig breyta á stjórnarskránni. Vegna víðtækra mótmæla fyrir utan er ætlast til að Sjálfstæðisflokkurinn fallist á það að vera ekki hafður með í ráðum þegar hugmyndum í þessu efni er teflt fram. (Gripið fram í.) Sérstaklega líka að vegna þess hve lengi hann var við völd skuli hann bara halda sig til hlés. Menn verða að geta rætt þessi mál efnislega.