136. löggjafarþing — 83. fundur,  18. feb. 2009.

undirbúningur loftslagsráðstefnu í Kaupmannahöfn.

[14:32]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. umhverfisráðherra fyrir þessa umræðu. Ég tel hana hafa verið gagnlega og leitt fram helstu rök í málinu.

Það sem eftir stendur og mestu máli skiptir er að þegar metin eru sjónarmið þeirra flokka sem skipa þingsalinn er augljóst að ríkur meiri hluti er fyrir því að ríkisstjórn Íslands beiti sér af hörku fyrir því að varðveita hið svokallaða íslenska ákvæði. Beiti sér fyrir því á alþjóðavettvangi að tryggja það að hagsmunum þjóðarinnar verði borgið og við eigum áfram möguleika á að byggja upp atvinnustarfsemi á grundvelli þeirra auðlinda sem við eigum. Með öðrum orðum að forræði okkar Íslendinga yfir þeim auðlindum sem skipta okkur svo miklu máli verði ekki bara í orði heldur á borði.

Ég tel nauðsynlegt að ráðherrann og ríkisstjórnin virði þennan þingvilja og allt kapp verði lagt á að sækja þetta sjónarmið. Enn er tími til þess, þó að ég taki undir með hv. þm. Siv Friðleifsdóttur að skammur tími sé til stefnu, en það á að láta á þetta reyna. Minnihlutastjórnin sem hér situr veit að þegar þingvilji kemur fram með jafnskýrum hætti og hér hefur gerst er ástæða til að hlusta á það og sækja ákvæðið.

Ég get lýst því yfir fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins að hann mun veita ríkisstjórninni alla þá aðstoð sem hún þarf á að halda til að beita sér í þessu. Hagsmunir eru ríkir og ekki bara hagsmunir Íslendinga og atvinnuuppbyggingar okkar til framtíðar — af því að ákvæðið kemur hvort eð er ekki til framkvæmda fyrr en eftir 2012 — heldur er þetta líka spurningin um hvernig við nálgumst umræður um umhverfismál. Eins og hér hefur ítrekað komið fram hjá mörgum hv. þingmönnum, er þetta ákvæði, hið svokallaða íslenska ákvæði, skynsamlegt út frá umhverfissjónarmiðum. Enda hefði það aldrei verið samþykkt nema vegna þess að þjóðir heims sáu að þetta var skynsamlegt og í þágu umhverfisins, ekki bara hér heldur alls staðar.