136. löggjafarþing — 83. fundur,  18. feb. 2009.

fjárhagsvandi heimila.

297. mál
[14:47]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég fagna þessari fyrirspurn og þakka hæstv. ráðherra fyrir ágæt svör. Ég tel að þetta sé eitt af hinum brýnu verkefnum þessarar ríkisstjórnar og stjórnvalda nú á tímum. Nokkur verkefni í þessu eru auðvitað alveg augljós en eitt af því sem velferðarvaktin, hygg ég, hljóti að skoða eru hin sálrænu áhrif og félagslegu áhrif á þá hópa sem ekki eru virkir í samfélaginu og ekki er yfirleitt talað um þegar við ræðum um atvinnu- og bankamál. Ég nefni aldraða. Ég hef sjálfur fundið að að þeim mörgum, öldruðum, sest kvíði og jafnvel sú tilfinning að þeirra líf eða okkar verk sé unnið fyrir gýg. Ég nefni börnin, sérstaklega af því að það liggja hér pappírshjörtu frá börnum frá síðustu helgi á borðum í kaffistofunni, en við verðum að gæta þess í þeim þrengingum sem við göngum nú í gegnum að börn verði ekki fórnarlömb, (Forseti hringir.) að þau fái ekki þau sár sem seint gróa í barnssálinni.