136. löggjafarþing — 84. fundur,  19. feb. 2009.

heilbrigðismál, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra.

[12:32]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég sagði áðan að þess hæstv. heilbrigðisráðherra sem nú er tekinn við biðu erfiðari verkefni en margra þeirra sem hann hefur á myndum uppi á vegg hjá sér í ráðuneytinu, nefnilega að tryggja annars vegar fulla hagkvæmni í hinni viðamiklu þjónustu sem hann stjórnar og reyna að draga eins og hægt er úr útgjöldum þar, og hins vegar að tryggja að búið sé eins vel og hægt er að þeim sem minni máttar eru í samfélaginu og verst verða úti við aðstæður eins og þær sem við búum við, þ.e. að sjúklingum auðvitað, en þó sérstaklega notendum heilbrigðisþjónustu úr hópi aldraðra og úr hópi barna. Ég get auðvitað nefnt ýmsa aðra hópa.

Það er ljóst að á næstu mánuðum og missirum — við skulum reikna með að heilbrigðisráðherra eigi sér lengri tíma í starfi en bara næstu tvo mánuði — verða það ekki hinir stórkostlegu minnisvarðar sem heilbrigðisráðherra fæst við að reisa. Það verður ekki fé til að bæta við húsnæði, tæknibúnað eða rekstur og þess vegna hljóta störf heilbrigðisráðherra að beinast að því að gera hlutina öðruvísi, gera þá betur, að nýta féð eins vel og mögulegt er og að virða fyrir sér þá forgangsröð sem heppilegust er í heilbrigðisþjónustunni. Það er verkefni sem menn hafa haft á orði í þessum ræðustól og annars staðar þar sem fjallað er um heilbrigðismál síðan ég man fyrst eftir umræðu um þau efni. Það hafa verið settar af stað nefndir og samdar skýrslur en því miður virðist það verkefni, að eiga við þessa forgangsröð, of erfitt til þess að stjórnmálamenn og heilbrigðisstarfsmenn hafi hingað til getað fengist við það að neinu ráði. Þarna liggja auðvitað mikil tækifæri þó að það geti verið sársaukafullt að setja upp slíka röð og núna er meiri þörf á því en nokkurn tíma áður.

En það eru auðvitað ákveðin tækifæri líka á krepputímum, á þeim tímum þegar á bjátar, vegna þess að þeir krepputímar hvetja menn til að hugsa upp á nýtt til að finna nýjar leiðir og það eru til ódýrari lausnir en steinsteypa og mikið mannahald og ný tæki sem bjóðast til framfara á þessu sviði. Það er auðvitað tækifæri til að hvetja Íslendinga eða að taka þátt í þeirri fyrirætlan Íslendinga, réttara sagt, að temja sér heilbrigðari lífshætti sem spara beinlínis í heilbrigðiskerfinu á hverjum degi og eru veruleg fjárfesting fyrir framtíðina af þeim augljósu ástæðum að maður sem lifir þokkalega heilbrigðu lífi þegar hann er ungur eða á miðjum aldri kostar heilbrigðisþjónustuna sennilega minna þegar hann eldist.

Það eru tækifæri til þess að efla á tiltölulega ódýran hátt forvarnir á mörgum sviðum, bæði í beinum heilbrigðismálum en einnig í fikniefnamálum og geðheilsumálum. Það eru tækifæri í samstarfi við önnur ráðuneyti til þess að búa betur að íþróttum, bæði afreksíþróttum en ekki síður almannaíþróttum með ýmsum hætti og það eru líka tækifæri til þess að huga að skipulagi heilbrigðisþjónustunnar og einkum tengslanna á milli heilsugæslunnar annars vegar og sjúkrahúsanna hins vegar, á milli heimilislækninganna annars vegar og sérfræðinganna hins vegar. Og spurning síðasta ræðumanns um hugmyndir heilbrigðisráðherra í því efni, um tilvísanakerfi sem við höfum rætt líka, þingmenn í salnum, í 10, 15, 20 ár og hægt er að hafa með ýmsum hætti — ég tek undir spurningu síðasta ræðumanns til heilbrigðisráðherra um hugmyndir hans í þeim efnum og öðrum tiltölulega einfaldari hlutum sem hægt er að ráðast í á næstu mánuðum og missirum.