136. löggjafarþing — 84. fundur,  19. feb. 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða o.fl.

321. mál
[15:10]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þetta frumvarp gengur einfaldlega út á það að fólk sem á þennan séreignarsparnað fær takmarkaðan aðgang að honum og það er fólkið sjálft sem síðan ákveður hvernig þessir fjármunir gagnast því best, hvernig það getur nýtt þá best til að laga aðstæður sínar. Það er að sjálfsögðu fráleitt að halda því fram að það sé annar megintilgangur þessa frumvarps að auka eftirspurn í hagkerfinu. Eykur það sérstaklega eftirspurn að menn ráði við þá óumflýjanlegu einkaneyslu sem þeir þurfa auðvitað að geta klofið ef þeir ætla að komast af? Ef einstæða atvinnulausa móður vantar peninga til að fæða börnin sín í vetur, er þá sanngjarnt að tala um það sem aðgerð til að auka eftirspurn að hún eigi fyrir þeim mat? Ég hreinlega átta mig ekki á því, frú forseti, hvar hv. þingmaður er á vegi staddur í þessari umræðu.