136. löggjafarþing — 84. fundur,  19. feb. 2009.

uppbygging og rekstur fráveitna.

187. mál
[16:18]
Horfa

Kjartan Ólafsson (S):

Frú forseti. Við ræðum nefndarálit um byggingu og rekstur fráveitna og hv. þm. og formaður umhverfisnefndar, Helgi Hjörvar, hefur farið yfir nefndarálitið og þær breytingartillögur sem um er að ræða. Það sem ég vil koma á framfæri í stuttri ræðu minni við þetta nefndarálit og þær breytingartillögur sem hér eru er þáttur sem hv. þingmaður kom einmitt inn á, þ.e. þau stærðarmörk sem um er að ræða í frumvarpinu. Annars vegar er um að ræða sumar- og frístundabyggðir, og svo dreifðari byggðir sem fyrst og fremst eru á landsbyggðinni en sá þáttur sem ég vil að komi fram í máli mínu, sem ég óttast að þurfi að fara betur yfir, eru stærðirnar þegar um er að ræða mjög dreifða byggð og sá kostnaður sem fylgir.

Það kemur fram, frú forseti, að sveitarfélögin gera ekki miklar athugasemdir við frumvarpið, og ekki heldur landshlutabundin samtök eða Samband íslenskra sveitarfélaga. Hins vegar óttast ég um hag gjaldendanna, þ.e. íbúa, hvort heldur er um að ræða íbúa sem eru með fasta búsetu eða þá þeirra sem eiga viðkomandi frístunda- og sumarhús, vegna þess að í lögunum er gert ráð fyrir því að sveitarfélögin geti sett upp gjaldskrá. Það kom einmitt fram í ræðu hv. frummælanda, Helga Hjörvars, að það hefur nokkuð komið til tals einmitt um gjaldskrána hvað þetta varðar og hvað má vera inni í gjaldskrá og tengigjöldum er varða þessar fráveitur. Að þeim þætti þarf að huga, þ.e. að hagsmunum notendanna og okkar ágætu íbúa í landinu.