136. löggjafarþing — 84. fundur,  19. feb. 2009.

stjórnarskipunarlög.

15. mál
[17:44]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Það var ekki ætlan mín að ræða þessa hluti svona lengi en ég tel mig samt verða að svara þessu andsvari. Fyrst með því að ég er efnislega algjörlega sammála Grétari Mar Jónssyni eins og hann veit reyndar manna best. Ég held að ég hafi byrjað á undan honum að tala um þessi efni og taka upp þá baráttu sem við höfum sameiginlega verið í í þessu máli. Ég þarf ekkert að endurtaka rök hans um mannréttindin og ég þarf ekki að endurtaka það heldur sem ég hef m.a. bent á og auðvitað margir fleiri að ein af rótum þess vanda sem við eigum nú við að glíma liggur einmitt aftur í kvótakerfið og þær gervieignir sem það bjó til á Íslandi og þá skrýtnu pappírspeninga sem þaðan fóru út í ýmsar skýjaborgir sem nú eru hrundar.

Ég verð hins vegar að segja að ég er ekki sammála honum um að það sé einskis virði að setja ákvæði um þjóðareign auðlinda í stjórnarskrá. Ég tel að það muni mjög styrkja hið fræga ákvæði í lögunum um stjórn fiskveiða og verða til þess að næsta skref sé það að virkja þjóðareignarákvæði stjórnarskrárinnar með því að fara t.d. einhverja útgáfu af hinni svokölluðu fyrningarleið sem minnst er á í starfi auðlindanefndarinnar sem rakið var hér áðan og Samfylkingin hefur gert að sínu, þó að hún sé reiðubúin til ýmiss konar samvinnu um það með ýmsum hætti.