136. löggjafarþing — 85. fundur,  20. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[16:03]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér er ljúft og skylt að upplýsa að það er Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, sem var formaður Sjálfstæðisflokksins árið 1991 þegar hann laut í lægra haldi á landsfundi Sjálfstæðisflokksins fyrir Davíð Oddssyni núverandi seðlabankastjóra. Ég lít svo á að hv. þingmaður hafi verið að gagnrýna þann sem hér stendur fyrir að halda ekki nógu langar ræður og hafa bara lesið stuttan kafla úr leiðaranum í staðinn fyrir að lesa hann allan og er þetta nokkuð á skjön við andsvar fyrri hv. þingmanns sem talaði á undan.

Ég veit ekki hvort ég tek þetta til mín og reyni að lengja ræðurnar en ég hef metið það þannig að það sé ekki markmið í sjálfu sér að halda langar ræður ef maður getur komið sjónarmiðum sínum áleiðis á tiltölulega skömmum tíma, ég held að það sé ágætisleið. Það er hins vegar rétt, virðulegi forseti, að ég notaði bara hluta af ræðutíma mínum eins og flestir þeir þingmenn ef ekki allir þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem hér hafa talað. Hv. þm. Mörður Árnason gerir athugasemd við það og telur að sá sem hér stendur hefði átt að nota ræðutíma sinn betur og lesa meira upp úr þessum góða leiðara sem ég hefði að sjálfsögðu getað gert því hann er mjög góður og á hann allur erindi við þjóðina og inn í þingsalinn. Ég tek þetta til athugunar og met það hvort það geti verið að ég tali allt of stutt. Í það minnsta held ég að ef við berum saman stjórnarandstöðuna núna og þá sem hefur verið áður, þá megi til sanns vegar færa að núverandi stjórnarandstaða talar almennt mun styttra og markvissara en þær stjórnarandstöður sem hafa verið á undanförnum árum. Kannski eigum við að taka þá okkur til fyrirmyndar og breyta háttum okkar. Við skulum skoða það.