136. löggjafarþing — 89. fundur,  26. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[11:13]
Horfa

Frsm. meiri hluta viðskn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. Þá er komið til 3. umr. í þinginu frumvarp til laga um breytingar á lögum nr. 36/2001, um Seðlabanka Íslands. Þetta mál hefur verið í þrjár vikur í þinginu. Því var dreift 4. febrúar sl., mælt var fyrir því 6. sama mánaðar og þann 9. hóf viðskiptanefnd umfjöllun um málið, hélt eina níu fundi og gerði á frumvarpinu nokkrar breytingar sem voru kynntar og allar samþykktar við 2. umr. Í rauninni er um að ræða tiltölulega einfalt mál. Það er skýrt afmarkað og í rauninni tvíþætt. Í fyrsta lagi er verið að formgera lagaramma í kringum peningastefnunefnd bankans og tryggja að í störfum hennar ríki gegnsæi og að henni komi tveir utanaðkomandi aðilar.

Í öðru lagi er verið að leggja af hina fjölskipuðu bankastjórn Seðlabankans, þriggja manna bankastjórn, og setja einn seðlabankastjóra í stað hinna þriggja. Meginefnisbreytingin sem nefndin gerði, og Alþingi samþykkti við 2. umr., var að einnig skyldi skipa aðstoðarseðlabankastjóra.

Ég ætla ekki að fara ítarlega yfir þær breytingar sem voru gerðar við 2. umr. en þær lutu í rauninni að því að styrkja meginstefnu frumvarpsins, sem ég hef hér lýst, sem var til þess fallið að auka enn á gegnsæi og upplýsingaskyldu, m.a. með því að peningastefnunefnd skuli birta fundargerðir sínar og hún skyldi taka tillit til fjármálastöðugleika í störfum sínum. Það voru afmarkaðar hæfiskröfur í þessu máli, sett á ákvæði um að matsnefnd skyldi skipa áður en skipað yrði í stöðuna og loks voru sett inn í frumvarpið ákvæði um svokallaða veltiskipan sem þýðir að ekki falla allir út úr stjórnum og nefndum á sama tíma.

Ég vil þakka fyrir þær góðu viðtökur og þá víðtæku samstöðu sem ríkti um afgreiðslu þessa máls við 2. umr. á föstudaginn þegar frumvarpið var samþykkt til 3. umr. með 50 samhljóða atkvæðum. Reyndar kom upp ágreiningur við Sjálfstæðisflokkinn sem flutti tvær tillögur sem ekki hlutu brautargengi við 2. umr., annars vegar hvað varðaði menntunarkröfurnar og hins vegar um það hver skyldi skipa í fyrsta sinn annan utanaðkomandi manninn sem sæti á að taka í peningastefnunefnd bankans. Þessar tillögur sjálfstæðismanna voru felldar og eins sátu þeir hjá við ákvæði til bráðabirgða, eitt af tveimur eða þremur.

Að öðru leyti vil ég þakka fyrir þann góða stuðning og þá miklu samstöðu sem hefur ríkt í þessu máli. Málinu var að beiðni Sjálfstæðisflokksins vísað aftur til nefndar á milli 2. og 3. umr. Nefndin hittist og hélt tvo fundi. Fyrst hittist nefndin á mánudaginn og á þann fund komu Jón Sigurgeirsson frá Seðlabanka Íslands og Stefan Loesch frá JP Morgan í Lundúnum. Á þeim fundi var upplýst og rætt um að væntanleg væri skýrsla sem unnin væri á vegum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og í henni mundi vera að finna tillögur um hert eftirlit með fjármálamörkuðum. Á fundinum kom fram að í skýrslunni væru ef til vill atriði sem eðlilegt væri að taka til skoðunar vegna reglusetningar um eftirlit með fjármálamörkuðum hér á landi. Það varð niðurstaða meiri hluta nefndarinnar að bíða þess að skýrslan kæmi út og væri gerð opinber, sem var í gær.

Á öðrum fundi viðskiptanefndar á milli umræðna var þessari skýrslu dreift. Í hádeginu í gær var haldinn stuttur fundur. Á þann fund komu Ágúst Geir Ágústsson, frá forsætisráðuneyti, og Áslaug Árnadóttir, frá viðskiptaráðuneyti. Þau tvö ásamt Stefáni Hauki Jóhannessyni, sendiherra Íslands í Brussel, og Martin Eyjólfssyni, sem er sviðsstjóri viðskiptasviðs utanríkisráðuneytisins, höfðu farið yfir skýrsluna sem er nokkuð efnismikil. Hún er einar 84 síður með viðaukum. Þessir embættismenn höfðu farið yfir skýrsluna og lögðu fram minnisblað, hálft þriðja blað, um helstu atriði hennar. Þessi skýrsla fjallar um orsakir fjármálakreppunnar, um úrbætur sem nauðsynlegar eru, að mati nefndarinnar, á regluverki á fjármálamarkaði í Evrópu, um breytingar á eftirliti með fjármálamarkaði og um breytingar sem að mati nefndarinnar þarf að gera á alþjóðavísu.

Í skýrslunni eru settar fram 30 tillögur til úrbóta sem eflaust munu í fyllingu tímans rata inn í löggjöf Evrópusambandsins. Samkvæmt þeim upplýsingum sem fyrir liggja er stefnt að því að það muni verða á árinu 2013. Löggjafarferli Evrópusambandsins tekur venjulega sinn tíma og er ljóst að þessi tími fram til 2013 er óvenjustuttur miðað við Evrópusambandið. Ég vil þakka þeim embættismönnum sem tóku saman þetta yfirlit yfir þessa skýrslu. Ég ætla að hlaupa aðeins á helstu niðurstöðum þeirra.

Skýrslan skiptist í fjóra kafla. Í I. kafla er fjallað um orsakir fjármálakreppunnar, eins og ég nefndi áðan, í II. kafla um úrbætur á regluverki á fjármálamarkaði, í III. kafla um breytingar á eftirliti á fjármálamarkaði og loks er í IV. kafla fjallað um breytingar sem gera þarf á alþjóðavettvangi. Helstu tillögur skýrsluhöfunda — og nú vitna ég, með leyfi forseta, í minnisblað það sem lagt var fram á fundi nefndarinnar í hádeginu í gær — lúta að því að mótaðar verði nýjar reglur sem miði að því að draga úr áhættu, bæta áhættumat og kerfislegar leiðir til að bregðast við áföllum, draga úr sveiflum og bæta gegnsæi. Þá er lagt til að eftirlit með fjármálamarkaði verði samræmt og bætt og gert er ráð fyrir meiri samvinnu eftirlitsaðila með öllum greinum fjármálaþjónustu innan Evrópusambandsins. Loks er lögð áhersla á að minnka verði sveigjanleika einstakra aðildarlanda við innleiðingu reglna á fjármálamarkaði til að tryggja samkeppni á innri markaðnum.

Síðan er farið yfir þessar tillögur, sem eins og ég sagði áðan eru í 30 liðum í skýrslunni, og í lok minnisblaðsins segir að ljóst sé að í skýrslunni séu mörg atriði sem skoða þurfi betur út frá íslenskum hagsmunum og hvernig einstakar tillögur og hugmyndir sem settar eru fram geta varðað Ísland og EES-samninginn. Lykilatriði á næstu vikum og missirum er að hve miklu leyti framkvæmdastjórn ESB kýs að gera tillögur nefndarinnar að sínum og hversu mikinn stuðning þær fá meðal aðildarríkjanna og í Evrópuþinginu í frekari úrvinnslu og í því löggjafarferli sem fram undan er. Hér er rétt að taka fram að þýsk stórfyrirtæki hafa nú þegar tjáð sig um tillögur nefndarinnar um eina yfirþjóðlega evrópska eftirlitsstofnun og eru lítt hrifin af því. En tilgangur skýrsluhöfunda er alveg ljós. Þeir telja að það megi engan tíma missa og þó að þessi skýrsla dugi væntanlega skammt til að leysa þann brýna kerfislega vanda sem nú steðjar að þá er öll áhersla nefndarinnar á það að sömu mistökin endurtaki sig ekki og að settar verði nýjar reglur á grundvelli fenginnar reynslu. Það er niðurstaða höfunda minnisblaðsins, sem eru sendiherra Íslands í Brussel og embættismenn í þremur ráðuneytum, með leyfi forseta:

„Skýrslan snýr ekki með beinum hætti að því frumvarpi um breytingar á lögum um Seðlabanka Íslands sem nú eru til umfjöllunar í viðskiptanefnd og verður ekki séð að hún eigi að hafa áhrif á afgreiðslu þess.“

Ég er nokkuð sammála þessari niðurstöðu, frú forseti. Ég vek þó athygli á því að í skýrslunni er að finna mikilvæga staðfestingu á því að regluverk Evrópusambandsins, hvað varðar innlánatryggingarnar, brást gersamlega í hruninu og það er tekið sérstaklega fram. Íslands er getið, „íslenska tilfellið“ er nefnt í skýrslunni, á einum þremur stöðum. Í 121. efnislið á bls. 34 í skýrslunni segir að hrunið hafi sýnt að í núverandi skipan innlánstryggingarkerfisins hafi verið afdrifaríkur veikleiki, eins og hér segir: „a major weakness“. Þetta er staðfesting á því sem við höfum áður fjallað um og varðar ábyrgðirnar á Icesave-reikningunum. Þess vegna er ljóst að það er margt í þessari skýrslu sem á eftir að koma til frekari umræðu í þinginu. Ég tel að það hafi verið mjög gott og mjög mikilvægt að fá þessa skýrslu svona glóðvolga inn í kastljós umræðunnar. Það er ekki alltaf sem Alþingi Íslendinga, þingmenn eða ráðuneytin eru með puttann á púlsinum um leið og hlutirnir gerast úti í Evrópu. Oft finnst okkur þingmönnum a.m.k. að við sitjum hér þangað til búið er að innleiða eitthvert regluverk í Evrópu, sem í þessu tilfelli verður kannski 2013 og verður síðan sent hingað inn til okkar.

Ég tel að þessi skýrsla muni nýtast mjög vel í framhaldinu við endurskipulagningu fjármálakerfisins og bankakerfisins hér. Okkur veitir svo sannarlega ekki af því að fylgjast með því sem er að gerast þar ytra.

Eftir að nefndarmenn höfðu haft gærdaginn til að kynna sér og fara yfir þessa skýrslu og minnisblaðið — og þeir embættismenn sem ég nefndi voru reiðubúnir til að aðstoða við frekari efnisöflun eða upplýsingar ef menn þyrftu á að halda — var haldinn annar fundur í hv. viðskiptanefnd eftir þingflokksfundi í gær. Telst mér svo til að það hafi verið níundi fundurinn sem nefndin fjallaði um málið.

Á þeim fundi var lögð fram af hálfu meiri hlutans breytingartillaga sem ég mun gera grein fyrir og hana er að finna á þskj. 591. Hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Á eftir 8. málsl. 2. efnismgr. 4. gr. komi nýr málsliður, svohljóðandi: Ef peningastefnunefnd metur það svo að alvarleg hættumerki séu til staðar sem ógna fjármálakerfinu skal hún opinberlega gefa út viðvaranir þegar tilefni er til.“

Hér er um það að ræða, frú forseti, að árétta það hlutverk peningastefnunefndar sem ég lýsti áðan, sem er að fylgjast með og taka ákvarðanir um beitingu stjórntækja bankans, svo sem eins og vaxtaákvarðana. Nefndinni ber að taka slíkar ákvarðanir og grundvalla þær á markmiðum bankans og á vönduðu mati á ástandi og horfum í efnahags- og peningamálum og fjármálastöðugleika. Ég hef einnig nefnt það hér að nefndinni er ætlað að birta opinberlega niðurstöður sínar og gera grein fyrir þeim rökum sem að baki standa. Enn fremur er nefndinni ætlað að birta fundargerðir sínar opinberlega innan tiltekins tíma þannig að þessi tillaga, sem bætist inn á eftir setningunni „opinberlega skal birta fundargerðir peningastefnunefndar og gera grein fyrir ákvörðunum nefndarinnar og forsendum þeirra“, er algerlega í samræmi við þann tón sem er að finna í þessari Evrópuskýrslu, og var höfð til hliðsjónar m.a. þegar þetta ákvæði var skrifað og sett inn.

Ég vil líka minnast á að það kom fram hjá öllum gestum nefndarinnar, og í mörgum þeim fjölmörgu álitum sem við fengum, að einhvern veginn hefðum við Íslendingar flotið algerlega sofandi að þeim feigðarósi sem bankahrunið var. Ýmist segja menn að engar viðvörunarbjöllur hafi hringt eða að ekki hafi verið á þær hlustað.

Í Evrópuskýrslunni er sérstaklega fjallað um viðvörunarkerfi, að setja upp ákveðið viðvörunarkerfi til þess einmitt að bjöllum verði hringt og á þær verði hlustað. Því er það að við teljum nauðsynlegt að taka þessa þekkingu inn til að styrkja enn frekar það grundvallarmarkmið frumvarpsins að peningastefnunefnd, á grunni vandaðrar athugunar á stöðu í efnahags- og peningamálum og fjármálastöðugleika, gefi út opinberlega viðvaranir meti hún það svo að alvarleg hættumerki séu til staðar sem ógni fjármálakerfinu.

Ég vil taka skýrt fram að við erum hér ekki að tala um að vara eigi við einhverju þegar komið er fram á bjargbrúnina í hruni, heldur einmitt að ef einhverjir þeir áhættuþættir eða einstök hættumerki séu til staðar þá beri nefndinni að gera viðvart um það. Ég vil líka vekja athygli á því að það mun vera hægt á þeim tveimur árlegum fundum sem nefndinni er ætlað að eiga með þremur nefndum þingsins að gera ráð fyrir því að þar og í kjölfarið á slíkum fundum væri leitað eftir því hvort einhver hættumerki steðji að og hvort ástæða sé til að gefa út sérstakar viðvaranir þar um.

Herra forseti. Ég hef reynt að hlaupa yfir vinnu nefndarinnar núna á milli umræðna. Ég vil þakka nefndarmönnum gott samstarf. Ég vil sérstaklega geta þess að sú ríka áhersla sem lögð var á það, einkum af hálfu Höskuldar Þórhallssonar, þingmanns Framsóknarflokksins, að þessi skýrsla yrði könnuð og hún fengi formlega meðferð í viðskiptanefnd þegar hún kæmi út — ég tel að það hafi verið mjög mikilvægt skref og ég tel að það muni nýtast okkur mjög vel, ekki bara hvað varðar uppbyggingu í bankakerfinu og í eftirlitsstofnunum heldur, eins og ég nefndi áðan, jafnvel strax gagnvart Icesave-málinu. Það skiptir máli, eins og ég sagði áðan, að vera með puttann á púlsinum og ég er ekki viss um að þessi skýrsla hefði ratað jafnfljótt inn í þingið og á borð þingmanna ef ekki hefði verið fyrir það að meiri hluti nefndarinnar ákvað að bíða þar til hún væri komin út. Ég vil þakka fyrir það.

Frú forseti. Hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins í viðskiptanefnd, hv. þingmenn Birgir Ármannsson, Guðfinna S. Bjarnadóttir, Árni Mathiesen og Jón Magnússon, hafa kynnt breytingartillögu sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 23. gr. laganna skal forsætisráðherra er hann skipar seðlabankastjóra og aðstoðarseðlabankastjóra í fyrsta sinn eftir gildistöku laga þessara leita staðfestingar Alþingis á skipan þeirra.“

Ég verð að segja, frú forseti, að ég tel þessa tillögu afskaplega ómálefnalega. Í meðförum nefndarinnar er búið að búa til mjög vandað regluverk um það hvernig skipa skuli í þessar stöður. Við vitum alveg hvernig hefur verið skipað í þær hingað til. Forsætisráðherra hefur skipað í þær einhendis og landlæg spilling og vantrú á skipan í embættismannakerfinu íslenska hefur orðið til þess að í því frumvarpi sem hér liggur fyrir þinginu er gerð tillaga um allt annað verklag. Í fyrsta lagi er gerð tillaga um að auglýsa, það er gert skylt að auglýsa eftir þessum háttsettu embættismönnum, sem eru seðlabankastjóri og aðstoðarbankastjóri.

Í öðru lagi er áskilið að viðkomandi skuli hafa lokið háskólaprófi í hagfræði eða tengdum greinum og hann skuli búa yfir víðtækri reynslu og þekkingu af fjármálastarfsemi og efnahags- og peningamálum. Enn fremur hafa verið sett inn í frumvarpið ákvæði sem fjalla um hæfi þeirra manna sem gegna þessari stöðu og miðað við að þeir verði skilgreindir sem fruminnherjar.

Í þriðja lagi, frú forseti, liggur fyrir, og var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum á föstudaginn var, að forsætisráðherra skuli skipa sérstaka nefnd sem hafi það hlutverk að leggja mat á hæfni umsækjenda um stöðu seðlabankastjóra og aðstoðarseðlabankastjóra. Sú tillaga miðar að því að styrkja enn frekar faglegan grundvöll við skipan í þessi embætti. Gert er ráð fyrir því að bankaráð Seðlabankans skipi einn fulltrúa í nefndina, einn verði skipaður af samstarfsnefnd háskólastigsins, en í þeirri nefnd eiga sæti rektorar háskólanna, sem hafa fengið staðfestingu eða viðurkenningu menntamálaráðuneytis, og loks skipi forsætisráðherra einn. Hér er, frú forseti, búið að búa til afskaplega vandað regluverk sem á að tryggja að aflagt verði það kerfi sem hingað til hefur gilt að skipa seðlabankastjóra einhendis án auglýsingar, pólitískt, án þess að nokkrar tilteknar hæfis- eða hæfniskröfur liggi því til grundvallar.

Frú forseti. Ég legg til að frumvarpið, með þeirri breytingu sem við í meiri hluta hv. viðskiptanefndar leggjum til, verði samþykkt svo breytt. Ég tel að það muni auka trúverðugleika efnahagsstefnunnar núna á þessum umbrotatímum. Ég tel að það leggi grunn að nýjum, betri og öflugri seðlabanka sem getur notið trausts og trúnaðar innan lands sem utan. Ég tel nauðsynlegt að það takist núna.