136. löggjafarþing — 89. fundur,  26. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[13:46]
Horfa

Frsm. meiri hluta viðskn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil taka undir það með hv. þm. Jóni Magnússyni að það er ekki góður siður að kollvarpa lagafrumvörpum milli 1. og 2. umr., hvað þá 2. og 3. Ég hef upplifað það sem þingmaður oftar en einu sinni, því miður, og það hefur ekki reynst góð lagasmíð sem þannig hefur farið í gegn. Meðal annars hefur Héraðsdómur Reykjavíkur dæmt slíka lagasetningu sem kollvarpað var á milli umræðna sem brot á stjórnarskrá lýðveldisins. Ég vil taka undir það með hv. þingmanni, þegar um það er að ræða að kollvarpa málum. Hér er ekkert slíkt á ferð, ekki neitt. Eins og ég sagði áðan er verið að árétta þá grunnreglu sem frumvarpið byggir á að störf Seðlabanka Íslands og sérstaklega peningastefnunefndar og ákvarðanir þeirrar nefndar skuli allar vera uppi á borðum í dagsljósinu, þar á meðal allar þær viðvaranir og varúðarbjöllur sem menn ýmist segjast hafa hringt eða hafi ekki haft hljóð.