136. löggjafarþing — 89. fundur,  26. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[13:52]
Horfa

Jón Magnússon (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég átta mig á því, hv. þm. Álfheiður Ingadóttir, að töluliður 180 gerir ráð fyrir ákveðinni aðferðafræði. En ég var ekki að spyrja hv. þingmann að því. Ég var að spyrja hv. þingmann hvort hægt væri að líta svo á að þessi ákveðni töluliður ætti við þegar verið væri að meta með hvaða hætti ætti að koma með opinberar tilkynningar. Ég var að vísa til þess að sennilega hefði meiri hluti nefndarinnar ekki lesið nægilega langt í skýrslunni til að átta sig á því að það væri þessi töluliður sem ætti við en ekki töluliður 170 eða 171 sem hv. þm. Höskuldur Þórhallsson vísaði til í ræðu sinni. Ég tel raunar að þetta sé með þessum hætti.

Ég tel að það sé með þessum hætti og með þessu svari sínu hafi hv. þm. Álfheiður Ingadóttir undirstrikað að meiri hluti viðskiptanefndar hefur greinilega kastað til höndunum og ekki skoðað inntakið sem þarna er um að ræða varðandi með hvaða hætti skuli staðið að opinberum tilkynningum. Að hún skuli flytja hér breytingartillögu eins og þá sem hér er um að ræða um að peningastefnunefnd skuli gefa út viðvaranir án þess að það séu neitt fyllri ákvæði um það sem greinilega er í þeirri skýrslu sem hér er vísað til og var forsenda þess að breytingartillagan var flutt. Hér er því um óvandaða lagasmíð að ræða sem er meiri hluta viðskiptanefndar til mikillar minnkunar að standa að. Ég tel áhöld um hvort þetta standist stjórnskipulega, og hvort skýringar hv. formanns viðskiptanefndar séu fullnægjandi. Hér er um verulega breytingu á hlutverki og eðli peningastefnunefndar að ræða, hvort sem okkur líkar betur eða verr.