136. löggjafarþing — 89. fundur,  26. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[14:45]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé og verði mikil eftirspurn eftir þekkingu hv. þm. Péturs H. Blöndals í atvinnulífinu þó að hann hafi tekið þátt í stjórnmálum. Auðvitað á þetta ekki almennt við um stjórnmálamenn á vinnumarkaði. Hv. þingmaður veit hins vegar að með þjóðum sem eru eldri en við og reyndari en við, eru sem kallað er prinsippfastari, hafa menn komið sér upp þeirri menningu að einum manni er falin meiri ábyrgð en öllum öðrum á efnahagslegri velferð landsins og það er seðlabankastjórinn í því landi. Það sem skiptir öllu máli um þann mann er að á honum hafi allir traust, að hann taki sjaldan til máls og að hann sé grandvarastur allra manna.

Með fullri virðingu fyrir okkur stjórnmálamönnum er það einfaldlega staðreynd lífsins að ýmislegt getum við sagt gott um okkur sjálf en við erum auðvitað umdeild. Við erum í stjórnmálum vegna þess að við höfum skoðanir á hlutunum og látum þær koma fram. Ýmsir slíkir hlutir geta orðið mönnum til trafala í störfum sem seðlabankastjórar. Þess vegna hefur það einfaldlega ekki tíðkast í þeim löndum sem við berum okkur saman við að menn sem gegnt hafa okkar starfi fari í starf eins og starf seðlabankastjóra sem þarf að njóta trausts allra. Það er erfitt fyrir okkur sem höfum skipað okkur í einn ákveðinn flokk að gera síðan tilkall til þess að fólk úr öllum flokkum eigi að treysta okkur fullkomlega og það fyrir undirstöðum velferðarinnar í samfélaginu, sjálfum efnahagsmálunum.