136. löggjafarþing — 89. fundur,  26. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[16:18]
Horfa

Jón Magnússon (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef verið algjörlega sanngjarn og málefnalegur í þessari umræðu, hv. þm. Höskuldur Þórhallsson. Í þeim ákvæðum sem þú vísar til, hv. þingmaður, er eingöngu fjallað um það að koma á viðvörunum, ekki um það að koma á opinberum viðvörunum. Ég hef bent hér á önnur atriði og annað sem um er að ræða. Það verður að gera kröfu til þess og það eru a.m.k. gerðar kröfur til okkar, hv. þm. Höskuldur Þórhallsson, sem lögmanna að við höfum kynnt okkur út í hörgul mál þegar við flytjum þau fyrir dómstólum og það eigum við líka að gera þegar við flytjum mál fyrir þjóðinni. Að sjálfsögðu eigum við að gera það. Ég er eingöngu að gagnrýna hv. þingmann fyrir að hafa ekki kynnt sér þetta mál nægilega vel til að geta staðið sómasamlega að þessari breytingartillögu. Ég er ekki að reyna að gera lítið úr einum eða neinum, síður en svo, ég tel einfaldlega að þessi tillaga sé á misskilningi byggð, það er þungamiðjan. Í sjálfu sér er ekkert óeðlilegt við það, við fengum umrædda skýrslu frá Evrópusambandinu með stuttum fyrirvara og ég veit að hv. þm. Höskuldur Þórhallsson var undir mikilli pressu, það lá á að reyna að þvinga hv. þingmann til að færa sig aftur inn í náðarfaðm meiri hlutans svo hægt yrði að þvinga fram þetta frumvarp til afgreiðslu sem allra fyrst. Að sjálfsögðu átta ég mig á að mikið lá við, mikið var í húfi, en það breytir ekki hinu að gera verður kröfu til þess að tillögur, tillögugerð og annað sé byggt á málefnalegum grunni. Ég hef bent á þau atriði varðandi þessa breytingartillögu. Hér vantar allar skýringar, hv. þm. Höskuldur Þórhallsson. Hvað er átt við með „alvarleg hættumerki“, hvað er átt við með því?