136. löggjafarþing — 89. fundur,  26. feb. 2009.

þingsköp Alþingis.

315. mál
[18:17]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég fagna því að við ræðum það frumvarp sem hér er á dagskrá um breytingu á lögum um þingsköp Alþingis. Hér er um grundvallarmál að ræða og ég vil segja það í upphafi míns máls að ég styð það markmið sem hv. flutningsmenn, hv. þingmenn Sturla Böðvarsson, Jón Magnússon og Valgerður Sverrisdóttir, leggja fram í þessu þingmáli. Markmiðið hlýtur að vera það að gera störf þingsins skilvirkari en þau eru í dag, að auka hagræðið í störfum þingsins. Við hljótum jafnframt með því sem hér er lagt til að fækka nefndum þingsins úr tólf niður í sjö að fylgja þeim breytingum eftir á sviði framkvæmdarvaldsins og fækka þar með ráðuneytum. Ég hefði viljað sjá að þeim yrði fækkað hið fyrsta og þá ekki í ósvipaða veru og frumvarpið sem við ræðum hér mælir fyrir um. Það þarf að auka hagræðið í rekstri hins opinbera. Ég er ekki að segja að það sé einhver sparnaðarlykt af því frumvarpi sem við ræðum hér. En ég held að við getum fengið mun meira og miklu skilvirkara kerfi ef við fækkum þessum nefndum.

Það er alveg rétt sem hv. þingmenn hafa sagt hér að álagið getur verið ótrúlegt fyrir þingmenn jafnvel í litlum þingflokkum. Ég man að á þar síðasta kjörtímabili voru þingmenn Framsóknarflokksins í allt að fjórum nefndum og við slíkt álag er náttúrlega varla hægt að búa. Þessu þarf að breyta. Við þurfum að hafa það í huga þegar þetta er rætt.

Það er einn algengur misskilningur úti í samfélaginu og mér finnst að við þurfum að hafa það á hreinu í þessari umræðu, að þingmenn fái greitt fyrir hverja einustu nefnd sem þeir sitja í og fái greitt fyrir hvern einasta fund. Það er alrangt. Það er ekki greitt fyrir neinn fund og það er ekki greitt neitt sérstaklega fyrir neina nefnd heldur er það þannig að ef viðkomandi gegnir formennsku í viðkomandi nefnd þá fær hann 15% álag ofan á þingfararkaup þannig að mér finnst vera mjög útbreiddur misskilningur í samfélaginu um það að eftir því sem menn eru í fleiri nefndum þá fái þeir meira greitt. Það er misskilningur sem við þurfum að leiðrétta.

Ég tel að við þurfum að þoka þessum málum áfram. Ég held að með breytingum sem þessum mundi hver og ein nefnd fá meiri þjónustu og sérfræðiaðstoð og það veitir svo sannarlega ekki af því að efla þá aðstoð við nefndir þingsins. Og það má velta því fyrir sér hvort kraftarnir séu að dreifast um of vegna þess að við erum með of margar nefndir og hvort þingmenn hafi þá heildaryfirsýn sem væri æskileg. Ef við tökum til að mynda þá tillögu sem hér er, að sérstök atvinnumálanefnd verði stofnuð á vettvangi þingsins sem undir heyrðu, iðnaðarmál, orkumál, landbúnaðarmál, sjávarútvegsmál, byggðamál og ferðamál, þá held ég að viðkomandi þingmenn sem sætu í slíkri nefnd hefðu miklu betri yfirsýn yfir íslenskt atvinnulíf og slíkt er mjög mikilvægt.

Í öðru lagi finnst mér það líka vera mjög gott sem stendur í greinargerð með frumvarpinu að markmiðið með þessu sé að auka eftirlitshlutverk Alþingis. Ég held að síðustu ár hafi sýnt okkur fram á að þurft hafi að efla það hlutverk þingsins, sérstaklega fjárlaganefndar þingsins og við þurfum þess vegna að auka sérfræðiaðstoð við nefndir Alþingis til að þingið standi undir því hlutverki sem því er ætlað að fylgjast með störfum framkvæmdarvaldsins og það þurfum við að bæta, hæstv. forseti.

Án þess að ég ætli að lengja mál mitt mikið þá vil ég nefna önnur álitamál sem mér finnst að við þurfum að ræða hér og það eru þessi svokölluðu meirihlutastjórnmál, þ.e. að þeir flokkar sem mynda ríkisstjórn hafi forustu í öllum nefndum þingsins. Mér finnst það ekkert sjálfgefið og ég mundi vilja að við skoðuðum það að hver og einn stjórnmálaflokkur sem fær kjör á Alþingi fái nefndarformennsku í hlutfalli við atkvæðamagn sitt. Framúrskarandi fólk er í öllum þingflokkum á Alþingi og ég tel að við þurfum að láta á það reyna að allir stjórnmálaflokkar fái að koma að því að leiða nefndir á vettvangi þingsins. Slíkt hefur því miður ekki tíðkast í allmörg ár en eins og ég segi hér, svo ágætir sem þingflokkarnir eru þá er það þannig að mér finnst að við þurfum að hleypa fleirum af forustustörfum á vettvangi Alþingis Íslendinga og við þurfum að koma okkur út úr þessum meirihlutastjórnmálum sem hafa viðgengist á undanförnum árum. Ég held að það sé ákveðið ákall um að við hugsum þessa hluti upp á nýtt. Tökum sem dæmi að Framsóknarflokkurinn fengi eftir kosningarnar í vor — vonandi fær hann mikið fylgi — segjum sem svo að hann fengi 16% fylgi (Gripið fram í: Fimm.) 16 og að nefndirnar væru sjö þá væri eðlilegt að sá flokkur fengi formennsku í einni nefnd. Sjálfstæðisflokkurinn með 33% fylgi, ef við tökum sem dæmi — sumum finnst það greinilega of mikið — að hann fengi tvo í samræmi við það magn atkvæða sem á bak við viðkomandi flokk er. Ég varpa þessu svona fram í umræðuna hvað þingmönnum finnist um það að við skoðum það að dreifa þessu valdi í samræmi við stuðning við flokka á þingi.

Ég er líka hjartanlega sammála því varðandi þá sem sitja í fjárlaganefnd Alþingis að miðað við það verkefnasvið sem er á sviði fjárlaganefndar er ekki mikið svigrúm fyrir þá nefndarmenn að vera í öðrum nefndum. Mér finnst í raun að við þurfum að fara að endurskilgreina fjárlagaferlið og auka líka vægi fagnefndanna. Ég mundi vilja sjá að sett yrðu ákveðin rammafjárlög þar sem menn setja stefnu, heildarmarkmið, hvað á að setja í hvern og einn málaflokk. Þegar kemur síðan að úthlutunum á fjárlögum þá vil ég einfaldlega að nefnd eins og heilbrigðis- og félagsmálanefnd ynni út frá einhverjum tilteknum ramma. Eins og þetta hefur verið þá hefur sá rammi vissulega verið fyrir hendi en síðan hefur fjárlaganefnd oftar en ekki í framhaldinu kallað til félagasamtök og fleiri aðila og stækkað rammann. Það hefur óheyrilega mikil vinna farið fram á vettvangi fjárlaganefndar þingsins til þess að stækka þessa ramma. Ég hefði frekar viljað sjá að menn væru búnir að móta þessa ramma fyrir fram og það væri þess vegna á forræði viðkomandi fagnefnda að úthluta úr þeim. Þannig gæti fjárlaganefnd þingsins einbeitt sér enn meira að því gríðarlega mikilvæga eftirlitshlutverki sem hún á að gegna í störfum á Alþingi. Það þarf að dreifa kröftunum og það þarf að gera fjárlagavinnuna miklu skilvirkari en hún hefur verið á undanförnum árum. Það að menn stækka þessa ramma eftir á hefur leitt af sér, og ég hef skoðað það, að umsóknir um styrki á fjárlögum hafa margfaldast á undanförnum árum og eru nú komnar yfir 1.000. Til samanburðar fyrir aðeins örfáum árum, tíu árum eða svo, þá voru þær á milli 100 og 200. Það segir sig náttúrlega sjálft að ef þessi þróun heldur áfram út í hið óendanlega þá verða komnar mörg þúsund umsóknir til fjárlaganefndar um einhver sértæk verkefni sem hún er að taka ákvörðun um og það fer gríðarlegur tími, dýrmætur tími í störfum fjárlaganefndar, í afgreiðslu þessara mála og tala ég nú af eigin reynslu. Ég held að við þurfum að skoða þessa hluti algerlega upp á nýtt. Með þessu er ég ekki að segja að það eigi að taka fjárveitingavaldið af Alþingi eða við eigum að láta framkvæmdarvaldið eingöngu úthluta þessu öllu. En ég tel að við þurfum að dreifa þessu valdi innan þingsins út í fagnefndirnar því við erum með þessu frumvarpi — eins og ég hef sagt hér þá styð ég meginatriði þess og vil að það verði skoðað sérstaklega í nefnd og útiloka svo sem ekki neinar breytingar — við erum að styrkja faglegan grundvöll og faglega aðstoð og ráðgjöf við þessar nefndir. Það segir sig sjálft að ef við gerum það þá eru þeir nefndarmenn sem sitja í þeim nefndum hvað best fallnir til þess að ákveða hvernig við skiptum þeim fjármunum sem við veitum af fjárlögum hverju sinni.

Hæstv. forseti. Ég vil lýsa því yfir að ég er mjög ánægður með að þetta frumvarp skuli komið fram og ég held að þetta sé angi af fjölmörgu sem við þurfum að taka til endurskoðunar á vettvangi þingsins og reyndar almennt í opinberri stjórnsýslu. Það er alveg ljóst að á erfiðum tímum sem eru fram undan — staða ríkissjóðs er mjög erfið og bág — þurfum við að taka erfiðar ákvarðanir. Við þurfum að hagræða hjá hinu opinbera í rekstrinum og þess vegna þurfum við að skoða allar leiðir sem eru fallnar til þess að draga úr útgjöldum ríkisins með það að markmiði að gera samt starfið skilvirkara en það hefur verið. Ég mæli þess vegna með því að þetta mál fái mikla og góða umræðu á vettvangi væntanlega allsherjarnefndar og segi að orð eru til alls fyrst og við þurfum að vinna mjög markvisst að því að endurskoða þessi mál því að nú þurfum við að fara að horfa í hverja einustu krónu. Það er sjálfsögð krafa um það úti í samfélaginu að hér á þessum vinnustað og öðrum gætum við fyllsta hagræðis og reynum að sýna fólki fram á að Alþingi er skilvirkt í sínum störfum og það veitir svo sannarlega ekki af því á þeim tímum sem við nú lifum. Ég er viss um að það er markmið þeirra sem flytja þetta frumvarp að bæta störf þingsins og ég tel að meginandi frumvarpsins sé í þá veru að verði það samþykkt, hugsanlega með einhverjum breytingum, þá verði störfin hér mun skilvirkari heldur en þau eru nú.