136. löggjafarþing — 89. fundur,  26. feb. 2009.

þingsköp Alþingis.

315. mál
[19:09]
Horfa

Flm. (Sturla Böðvarsson) (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þær móttökur sem frumvarpið hefur fengið og þær mikilvægu umræður sem hér hafa farið fram. Ég tel það mjög gott innlegg í þá vinnu sem hv. allsherjarnefnd þarf að inna af hendi við meðferð þessa máls. Ég tek undir það sem fram kom hjá þingmönnum að mjög mikilvægt er að allsherjarnefnd fari vel yfir málið og eðlilegt að forsætisnefndin fjalli um það með sínum hætti og færi upplýsingar inn til allsherjarnefndarinnar.

Ég lít svo á að sú breyting sem frumvarpið gerir ráð fyrir sé mjög mikilvæg og ég undirstrika að ég tel að það sé algerlega nauðsynlegt að við tökum þetta mál til afgreiðslu hér núna til þess að nýtt þing geti strax miðað sig við þær breytingar sem við viljum að séu gerðar á nefndaskipan. Við höfum gert miklar breytingar á störfum þingsins í svo mörgu tilliti, ekki bara hvað varðar takmörkun á ræðutíma. Það hefur í raun ekki verið sett mjög mikil takmörkun á umræður hér vegna þess að í staðinn fyrir að takmarka ræðufjöldann er tímalengd hverrar ræðu takmörkuð hér í umræðum í þinginu í raun og veru ásamt síðan því að starfsaðstöðu þingmanna hefur verið gjörbreytt og hún bætt. Það er mjög mikilvægt að minna á það. Síðan undirstrika ég það sem hér hefur komið fram og ég nefndi sérstaklega, að eftirlitshlutverk er svo mikilvægt og það að fækka nefndunum, breikka svið hverrar nefndar, gefur þeim miklu öflugri viðspyrnu til þess að takast á við eftirlitshlutverkið og ég tala nú ekki um að halda opna fundi sem ég tel að eigi eftir að koma í ljós að sé ef til vill sú mikilvægasta af öllum breytingunum sem við höfum verið að gera hér á störfum þingsins, þ.e. að nefndirnar starfi fyrir opnum tjöldum gagnvart ákveðnum málum, ekki öllum málum heldur ákveðnum völdum málum, sem nefndirnar taka til við.

Ég vona að þverpólitísk samstaða náist um þetta mál þó að bara þrír þingmenn flytji það. Ég vona að það megi ekki merkja það á máli hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar að hann ætli að leggjast gegn þessu frumvarpi vegna þess að Vinstri grænir eru ekki aðilar að málinu. Ég vona að ekki beri að skilja orða hans þannig.

Sem betur fer tókst mjög víðtæk samstaða um breytingar á þingsköpunum og þrátt fyrir að hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs væru á móti því í grundvallaratriðum hafa þeir unnið mjög vel í samstarfi hér í þinginu á grundvelli þeirra breytinga sem voru gerðar.

Hvað um það. Ég tel mjög mikilvægt að jafnmargir séu í öllum nefndunum og fjárlaganefndin hefur ekkert að gera með ellefu nefndarmenn. Ástæðan fyrir því að ellefu þingmenn eru í fjárlaganefndinni á sér þær skýringar að einn hv. þingmaður að mig minnir sem sætti sig ekki við að vera ekki í fjárlaganefndinni gerði kröfu til þess að komast í hana og það var látið undan þeim þrýstingi og það leiddi til þess að það þurfti að fjölga í nefndinni. Ég þekki þetta vegna þess að ég var í þinginu þegar þetta gerðist. Ég get rifjað það hér upp með öðrum hætti og utan þingsalarins þannig að allt á sínar skýringar. Ég tel að níu manna fjárlaganefnd yrði ekkert síður öflug til sóknar og varnar í ríkisfjármálunum og eftirliti með ríkisfjármálunum eins og hv. þm. Birkir Jón Jónsson nefndi réttilega. Fjárlaganefndin þarf að beina sjónum sínum að eftirlitshlutverkinu.

Ég tek undir það að rammafjárlagagerðin er geysilega mikilvæg. Við eigum að færa fjárlagagerðina yfir í að afgreiða fjárlög í tveimur áföngum þannig að fyrst á vorþingi verði ramminn ákveðinn fyrir næsta ár á eftir og síðan er það á haustþinginu sem fjárlaganefndin og fagnefndirnar fjalla um það hvernig eigi að deila inn í rammana fjárlagaþáttunum öllum. Það er því mjög spennandi tími fram undan að mínu mati við að styrkja þingið og ég er mjög ánægður með þann mikla áhuga sem birtist hér í þinginu ekki síst og út um allar jarðir gagnvart því að styrkja stöðu þingsins og skerpa mörkin á milli framkvæmdarvaldsins og löggjafarvaldsins.

Ég er sammála því sem hér hefur komið fram að ég tel að það eigi að skipta upp í nefndum og formennsku í nefndum og þar á meðal formennsku í forsætisnefnd þingsins á grundvelli kjörfylgis. Ég tel að það eigi að gera. Ég vona að á nýju þingi verði tekið á því. Með því er vilji kjósenda endurspeglaður í störfum þingsins. Þetta er alltaf mjög viðkvæmt og út af fyrir sig er ég ekki sammála því að það sé einhver ávísun á afl þingsins að hér fari að verða viðvarandi minnihlutastjórnir. Ég tel að það sé út af fyrir sig styrkleikamerki að það skapist meiri hluti á bak við ríkisstjórn. En það á ekki að þurfa að þýða að stjórnarandstaða sé algerlega sett til hliðar. Ég tek undir það að ofurvald meiri hluta hér í þinginu hefur oft verið misskilið af hálfu þeirra sem hafa haft meiri hluta. Auðvitað á stjórnarandstaðan að gegna sínu mikilvæga hlutverki og það hefur verið vilji minn hér í þinginu og á meðan ég var forseti þingsins þá lagði ég sérstaka áherslu á að styrkja stöðu stjórnarandstöðunnar. Hvernig gerði ég það? Jú, með því meðal annars að stjórnarandstöðuleiðtogarnir hefðu betri aðstöðu með því að hafa aðstoðarmenn og að þingmenn stjórnarandstöðunnar hefðu betri starfsaðstöðu með því að þeim væru skaffaðir fleiri starfsmenn til verka á nefndasviðinu og fleira mætti nefna.

Hér í umræðunni hefur ýmislegt komið gagnlegt fram sem ég tel að við þurfum að huga að og allsherjarnefndin mun fara yfir og ég vænti þess og skora á hv. þingmenn sem fjalla um þetta í allsherjarnefndinni að fara vandlega yfir þessar tillögur. Ekkert er óbreytanlegt. Þess vegna erum við hér í þinginu að fjalla um hlutina, fara yfir tillögur og gera breytingar á þeim tillögum sem koma hér inn. Ég mun taka því fagnandi ef það finnast betri lausnir enda eru tillögur sem eru í frumvarpsformi afrakstur vinnu sem ég lét framkvæma í þinginu. En ég gerði alltaf ráð fyrir því að á þessu yrðu einhverjar breytingar gerðar. Ég skora hins vegar eindregið á hv. þingmenn að fjölga ekki nefndunum frá því sem hér er gerð tillaga um. Það mun verða stílbrot að mínu mati. Við eigum að finna aðrar lausnir.

Svo er auðvitað alþjóðasamstarfið sem hér var nefnt sérstaklega. Það er kapítuli út af fyrir sig. Síðan tel ég að það þurfi að fjalla um það í þinginu hvernig og hvort ástæða sé til þess að setja á fót sérstaka eftirlitsnefnd eins og er sums staðar. Það tel ég að þurfi að skoða sérstaklega.

Hvað það varðar að fækkun nefnda geti leitt til þrengra sjónarsviðs þá tel ég að svo eigi ekki að þurfa að verða auk þess sem mér finnst ekkert óeðlilegt að innan kjörtímabilsins skipti menn á milli nefnda og nýti þannig þekkingu sína úr starfi í einni nefnd yfir í starf í annarri.

Það eru margar hliðar á þessu öllu saman. Ég held að aðalatriðið sé að verkin séu skilvirk og við sköpum betri aðstæður til þess að sinna löggjafarstarfinu hér og tek undir það sem kom fram hjá hv. þm. Pétri Blöndal að ég tel að á vettvangi þingnefndanna eigi að gera meira af því að vinna frumvörp. Mér finnst að ríkisstjórnir eigi að gera meira af því — til þess líka að flýta för mála í gengum þingið — að óska eftir því að þingnefndirnar taki tiltekin mál upp og þannig nýti ríkisstjórnirnar þekkinguna í þinginu, í þingnefndunum, í nefndasviðinu til þess að taka á ákveðnum mikilvægum málum.

Þetta ætla ég, hæstv. forseti, að láta duga í þessari umræðu. Ég þakka viðtökurnar sem frumvarpið fær og vænti þess að hv. allsherjarnefnd fari vandlega yfir þetta og að við gerum þetta eins vel úr garði og nokkur kostur er.