136. löggjafarþing — 90. fundur,  2. mars 2009.

skuldir heimilanna.

[15:22]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Herra forseti. Ríkisstjórnin fagnar nú mánaðarafmæli sínu, stjórn sem var mynduð til að taka á bráðavanda heimila og fyrirtækja strax. Í dag eru fyrirtæki að klára lausafé sitt og mörg heimili horfa upp á gríðarlega fjárhagslega erfiðleika. Það var á þeim grunni sem við framsóknarmenn lögðum fram efnahagstillögur okkar nú í síðustu viku, til þess að koma til móts við bráðavanda heimila og fyrirtækja. Við fengum fjölda sérfræðinga úr atvinnulífi og úr háskólasamfélaginu til þess að meta þessar tillögur og koma með góðar ábendingar.

Það voru því mikil vonbrigði, hæstv. forseti, að hæstv. forsætisráðherra skyldi hafa tekið svo illa í þá leið sem við framsóknarmenn leggjum til, að skuldir heimila og fyrirtækja verði lækkaðar um 20%, afskrifaðar um 20% til þess að mæta þeim miklu erfiðleikum sem blasa við. Þeir sérfræðingar sem við höfum ráðfært okkur við hafa sagt að hætta geti verið á kerfishruni í íslensku samfélagi. Ekki megi bíða með aðgerðir fram á haustið, það getur nefnilega verið erfitt að stoppa snjóflóð í miðri hlíð.

Hæstv. forseti. Ég spyr hæstv. forsætisráðherra hvort hún sé reiðubúin til að skoða með opnum huga þær efnahagstillögur sem Framsóknarflokkurinn hefur lagt fram. Það er kominn tími á aðgerðir. Það er óábyrgt að fresta vandanum. Við framsóknarmenn lögðum þessar tillögur til af heiðarleika, ekki var verið að reyna að fella einhverjar pólitískar keilur (Gripið fram í.) heldur er markmiðið að koma til móts við þann bráðavanda sem blasir við íslenskum heimilum og fyrirtækjum. Hér má ekki bíða, hæstv. forseti. Það má heldur ekki bíða með að taka erfiðar ákvarðanir þó að það líði að kosningum.

Við framsóknarmenn viljum stuðla að (Forseti hringir.) góðum málum hér á vettvangi þingsins. Ég spyr því hæstv. forsætisráðherra hvort hún vilji vera með okkur framsóknarmönnum í því efni og hvað henni finnist um þær efnahagstillögur sem við lögðum fram.