136. löggjafarþing — 90. fundur,  2. mars 2009.

staða landbúnaðarins.

[15:52]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Við stöndum frammi fyrir miklum vanda í íslenskum landbúnaði. Það fer ekkert á milli mála. Þau mál hafa verið rædd hér á þessum vetri og fullkomlega að gefnu tilefni. Sá vandi sem við er að glíma hefur enn vaxið vegna þeirra verðhækkana sem munu skella yfir landbúnaðinn í formi hækkandi áburðarverðs. Það er gríðarlegt áhyggjuefni. Í fyrra hækkaði áburður um 70–80% og nú er talið að hann muni aftur hækka um 50% á milli ára. Talið er að áburðarreikningur landbúnaðarins muni hækka frá því í hittiðfyrra um 2 milljarða kr. alls.

Þetta er gífurlegt áfall. Ég er sammála því sem hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sagði, ég tel að það eigi að íhuga hvort með einhverjum hætti sé hægt að nota Bjargráðasjóð til að koma til móts við þarfir landbúnaðarins í þessu skyni. Það þarf að breyta lögum og það verður að ná samkomulagi en ég tel að þetta sé mál af þeirri gerð að við eigum að skoða það með mjög opnum huga.

Við þurfum hins vegar að gæta þess mjög, ef til þess kemur, að það séu þá bændur sem njóti þeirrar fyrirgreiðslu en þetta renni ekki til annarra sem kunna að reyna að maka krókinn við þessar aðstæður. Það var það sem kom í veg fyrir það á sínum tíma að Bændasamtökin eða landbúnaðarráðuneytið vildu skoða það frekar að fara út í einhverjar niðurgreiðslur á áburðarverði. Menn óttuðust að þær niðurgreiðslur rynnu ekki til þeirra sem sérstaklega þyrftu á því að halda.

Ég vil vekja athygli á því að þegar bankahrunið varð hafði ég forgöngu um það að fram færu viðræður við viðskiptabankana um stöðu landbúnaðarins vegna sérstöðu þeirra. Þær viðræður skiluðu mjög góðum árangri. Ég vil hvetja hæstv. ráðherra til að beita sér fyrir því að aftur fari fram slíkar umræður til þess að við getum tekið á þeim mikla vanda sem við er að glíma.

Vitaskuld skiptir mestu máli að afurðaverð bænda geti hækkað með eðlilegum hætti. Ég vil þess vegna spyrja hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að því hvort hann muni beita sér fyrir því að verðlagsnefnd búvöru komi nú saman til þess að verðleggja mjólk með tilliti til þeirra hækkana sem orðið (Forseti hringir.) hafa á aðföngum, sérstaklega áburði. Ég veit að þetta leysir ekki allan vanda og vandi sauðfjárbænda er eftir sem áður óleystur en það væri (Forseti hringir.) stórt skref í rétta átt ef þetta mál væri skoðað.