136. löggjafarþing — 90. fundur,  2. mars 2009.

staða landbúnaðarins.

[15:54]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Herra forseti. Öllum er ljóst að eftir efnahagskreppuna sem við höfum gengið í gegnum er staða bændasamfélagsins ekki góð. Þó eru ýmsir góðir hlutir að gerast í íslenskum landbúnaði sem gefa tilefni til bjartsýni.

Mikið átak er í kornrækt, menn eru að hugleiða heimaslátrun í auknum mæli og ferðaþjónusta bænda hefur tekið mikinn kipp, bændagisting og ferðaþjónusta á ýmsum sviðum sem gefur bændum auknar tekjur með öðrum hefðbundnum búskap. Skógrækt og landgræðsla eru líka hluti af því sem bændur hafa verið að fara í í auknum mæli. Allt er þetta til að hjálpa bændastéttinni sem slíkri.

Við ræddum það hér í þinginu fyrir fáum dögum að koma fóðurverksmiðju á laggirnar. Það er hlutur sem sjálfsagt er að skoða og reyna að gera. Menn hafa líka verið að skoða það að koma hér upp áburðarverksmiðju, verð á innfluttum áburði er mjög mikill hluti af kostnaði bænda.

Búvörusamningana er búið að svíkja og þar þurfa stjórnvöld að koma að og laga það á ný. Ég verð að minnast á að fyrir þinginu liggur frumvarp um að leyfa innflutning á fersku kjöti. Ég hef margsagt það hér í þessu ræðupúlti að þörf væri á því að fresta gildistöku þess um að minnsta kosti eitt ár til að tryggja bændum sem og öðrum aðlögun (Forseti hringir.) við þessar aðstæður. Einnig þarf að taka tillit til virðisauka og hjálpa bændum (Forseti hringir.) með það.