136. löggjafarþing — 90. fundur,  2. mars 2009.

innköllun íslenskra aflaheimilda.

98. mál
[17:40]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Kúvendingar í sjávarútvegi hafa engar orðið síðan kvótakerfið var sett á fyrir 25 árum. Þann 1. janúar árið 1984 tók kvótakerfið gildi, var samþykkt í þinginu haustið 1983. Það er eina kúvendingin sem orðið hefur í fiskveiðum og er eitthvert mesta feilspor sem við höfum stigið fyrr og síðar. Það hefur m.a. leitt af sér þá kreppu sem við stöndum frammi fyrir núna að mati margra hæfustu hagfræðinga bæði okkar og annarra landa sem hafa talið að þetta hafi verið ógæfa okkar númer eitt, tvö og þrjú, það var að innleiða þetta braskkerfi.

Hver hefir svo árangurinn orðið af þessu fiskveiðistjórnarkerfi? Þegar kerfið var sett á máttum við veiða 267 þús. tonn af þorski. Á síðasta ári var úthlutað 130 þús. tonnum af þorski, það er nú allur árangurinn. Þegar kerfið var sett á þurfti að segja mönnum það og fólkinu í landinu að mjög slæmt ástand væri á þorskstofninum til þess að hægt væri að rökstyðja það að afhenda fáum útvöldum kvótann, fiskinn.

Við stöndum því frammi fyrir því að sú ógæfa og sú kreppa sem við búum við núna er að stærstum hluta til komin vegna reglna um stjórn fiskveiða og gjafakvótakerfisins. Ef við ætlum að líta til framtíðar og byggja Ísland upp á nýtt er það það fyrsta sem við þurfum að gera að breyta fiskveiðistjórnarkerfinu og innkalla allar veiðiheimildir á Íslandi til þjóðarinnar, til ríkisins og úthluta þeim aftur með eðlilegum hætti þaðan.