136. löggjafarþing — 92. fundur,  4. mars 2009.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

313. mál
[12:34]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við þingmenn Sjálfstæðisflokksins — ég segi það nú sjaldan — reyndum eins og mögulegt var að greiða fyrir málinu í nefnd og það gekk mjög hratt fyrir sig. Við erum mjög hlynnt þessari breytingu því að hún er skref í þá átt að draga úr ógagnsæi í kjörum þingmanna og vonandi hefur það áhrif annars staðar.

En það er ekki rétt að við séum búin að útrýma þeim sérkjörum sem þingmenn njóta vegna þess að 80% af þjóðinni er gert að greiða í lífeyrissjóði sem veita miklu lakari rétt. Það eru kjósendur okkar. Það að þingmenn skuli velja Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, sem er með bestu kjörin og hæsta iðgjald atvinnurekenda, eru sérkjör. Af hverju veljum við Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins? Það eru ekki nema 20% af kjósendum okkar þar. Þannig að þó við séum að stíga þetta skref þá er þetta ekkert lokaskref. Ég vona að menn gangi enn lengra og greiði atkvæði með breytingartillögu minni um að þingmenn (Forseti hringir.) geti valið sér almenna lífeyrissjóði.