136. löggjafarþing — 92. fundur,  4. mars 2009.

kosningar til Alþingis.

368. mál
[13:04]
Horfa

Geir H. Haarde (S) (andsvar):

Herra forseti. Eins og fram hefur komið hér fyrr í dag er venjan sú þegar kosningalögum er breytt að um það sé samstarf allra stjórnmálaflokkanna. Svo hefur ekki verið að þessu sinni og ber að harma það.

Við sjálfstæðismenn erum ekki andvígir því að auka möguleika kjósenda á að hafa áhrif á röðun á framboðslistum í kosningum. Það hefur hver flokkur sinn háttinn á í þeim efnum og við förum prófkjörsleiðina í Sjálfstæðisflokknum og það gera ýmsir aðrir flokkar eins og kunnugt er. Nú er stutt í þingkosningar miðað við fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar sem hefur kynnt á blaðamannafundi að þær eigi að vera 25. apríl þó að hin formlega ákvörðun hafi ekki verið tekin. Út frá því hafa flokkarnir unnið í sínum kosningaundirbúningi, m.ö.o. er leikurinn hafinn. Það er búið að flauta til leiks, það gera allir ráð fyrir þessum tímasetningum og hafa miðað ráðstafanir sínar út frá því.

Ég tel með öllu óviðeigandi að bjóða upp á svo miklar grundvallarbreytingar á kosningalögunum sjö vikum fyrir kosningar að óræddu máli milli flokka og að óræddu máli í þjóðfélaginu. Ég skil ekki hvaða nauðir rekur til þess að standa þannig að þessu máli núna. Það er engu líkara en að hv. þingflokksformenn sem þetta mál flytja, að því er virðist í góðri sátt — þó að ég hafi grun um að þeir séu ekki allir jafnsammála um þetta — hafi ekki kynnt sér tilmæli t.d. Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu eða Evrópuráðsins um það að ekki eigi að gera breytingar á kosningalögum einu ári fyrir kosningar, alls ekki síðustu vikurnar fyrir kosningar og náttúrlega alls ekki þegar um er að ræða svona stórar og mikilvægar breytingar. Látum vera með tæknilegar smábreytingar eins og við höfum farið með í gegnum þingið en breytingar af þessu tagi eru ótækar af þessari ástæðu og ég spyr: Ætla flutningsmenn að hafa þessar (Forseti hringir.) ráðleggingar og þessi tilmæli algjörlega að engu?