136. löggjafarþing — 93. fundur,  4. mars 2009.

fundarstjórn.

[15:12]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ekki ætla ég að fara í einhverja pissukeppni við hæstv. forsætisráðherra um hver gerði hvað og hver gerði ekki hvað. Við vorum saman í síðustu ríkisstjórn og ég segi það skýrt og skorinort: Við berum mikla ábyrgð á ýmsum hlutum sem voru gerðir og ekki gerðir í síðustu ríkisstjórn og við eigum ekki að vera að karpa um það. Það er alveg rétt, það liggur fyrir.

Ég vil líka minna á að það þýðir ekki að stinga höfðinu í sandinn hvað varðar ábyrgð á bankamálum í landinu. Hver var með viðskiptabankaráðuneytið? Samfylkingin stýrði því ráðuneyti en við stóðum saman í þeirri ríkisstjórn, við gerðum margt gott fyrir samfélagið en við gerðum líka marga hluti sem betur hefðu mátt fara, ég held að við hljótum að vera sammála um það.

Við eigum ekki að vera að karpa á þessum nótum, hæstv. forsætisráðherra. (Gripið fram í.) Aðalmálið er að við vinnum áfram fyrir samfélagið og við skulum gera það saman. Við munum styðja ykkur í því að koma bankakerfinu í lag. Við munum gera það með ráðum og dáð og nýtum tíma þingsins fyrst og fremst í það að tala um efnahagsmálin, atvinnumálin og koma bönkunum í lag til þess að fyrirtækin geti starfað í landinu. Ég ítreka það enn og aftur: Við skulum ekki vera að vera að henda (Forseti hringir.) bolta á milli okkar, gerum þessi verk saman. Við munum styðja ykkur.