136. löggjafarþing — 94. fundur,  4. mars 2009.

kosningar til Alþingis.

368. mál
[18:19]
Horfa

Geir H. Haarde (S) (andsvar):

Frú forseti. Það sem ég átti við er að með því að samþykkja þær tillögur sem felast í þessu frumvarpi væri verið að gera grundvallarbreytingu á kosningafyrirkomulagi okkar með því að í stað þess að kjósa eingöngu um flokka og geta gert minni háttar breytingar á röð, eins og hv. þingmaður benti á, væri boðið upp á það og jafnvel ætlast til þess að kjósendur réðu alfarið uppstillingu á lista hvers flokks. Þó að reyndar sé sagt núna að flokkarnir eigi að geta valið, sem er náttúrlega ruglingslegt og mundi valda ruglingi meðal kjósenda, og jafnvel að geta valið á milli kjördæma sem gerir málið heldur snúnara sömuleiðis.

Það sem ég átti við með því að nota þessi orð, að þetta væri grundvallarbreyting á fyrirkomulaginu, var auðvitað það að ef menn vilja gera slíka breytingu verður að ætla fólki eðlilegan aðdraganda að slíku. Ég nefndi þetta í samhengi við þann ársfyrirvara sem sérfræðiaðilar úti í heimi tala um að eðlilegt sé að miða við þegar breytingar eru gerðar á kosningalögum, að það sé ekki hrapað að slíkum breytingum örfáum vikum fyrir kosningar þegar enga brýna nauðsyn ber til þess og engar nauðir rekur til þess að gera slíka breytingu. Það er það sem ég er að vekja athygli á.