136. löggjafarþing — 94. fundur,  4. mars 2009.

kosningar til Alþingis.

368. mál
[18:52]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Sú er hér stendur er einn meðflutningsmanna þessa máls sem við ræðum og ég ætla ekki að fara mikið út í frumvarpið lið fyrir lið, það gerði hv. þm. Lúðvík Bergvinsson ágætlega í framsögu sinni. Þetta mál, aukið persónukjör, gengur að sjálfsögðu út á það að færa meira vald til fólksins og minnka flokksræðið þeim mun meira, ef svo má að orði komast. Við höfum verið að skoða þessi mál sérstaklega í Framsóknarflokknum og ég vil minna á að við samþykktum á flokksþingi okkar ályktun um að frumvarp um stjórnlagaþing yrði flutt hér í þinginu og það höfum við gert. Það er einmitt í sama anda, við viljum fá fólkinu meira vald og að valdið verði að einhverju leyti tekið úr höndum þingsins t.d. þegar þarf að semja nýja stjórnarskrá því mat okkar er að algjörlega sé útséð um að þingið og þingmenn geti farið í einhverja heildarendurskoðun á stjórnarskránni. Við höfum ekki náð saman um það hingað til þannig að það er um að gera að koma því í hendurnar á stjórnlagaþingi. Mikil samstaða var um ályktunina á flokksþingi okkar og ég er mjög ánægð með viðtökurnar sem þetta mál hefur fengið hjá bæði Vinstri grænum og Samfylkingunni hér í þinginu og vona að það komist í gegn sem fyrst.

Hér erum við að tala um að auka vald fólks í kjörklefanum og áður en ég fer inn í málið langar mig að lesa upp, virðulegur forseti, þá ályktun sem Framsóknarflokkurinn samþykkti á síðasta flokksþingi en þar var ályktað sérstaklega um nýja kosningalöggjöf.

Tilvitnun hefst, með leyfi forseta:

„Ályktun um nýja kosningalöggjöf.

Markmið. Við kosningar til Alþingis og sveitarstjórna verði leitað leiða til að persónukjör og vægi kjósenda aukist við röðun á lista. Jafnframt verði reynt að skapa meiri tengsl milli kjörinna fulltrúa og kjósenda. Leitast verði við að tryggja sem jafnast vægi atkvæða á landsvísu.

Leiðir. Frambjóðendum hvers lista skal einungis raðað eftir stafrófsröð á kjörseðil.

Kjósendur raði fulltrúum á lista og kjósi þannig viðkomandi lista.

Fyrstu skref. Framsóknarflokkurinn beiti sér fyrir því að Alþingi setji af stað vinnu við að breyta kosningalögunum sem hafi þessi markmið að leiðarljósi.“

Því er alveg klárt að Framsóknarflokkurinn vill innleiða persónukjör og að það persónukjör fari fram í kjörklefanum. Sá vandi sem okkur er á höndum nú er að við erum að ræða þessi mál mjög skömmu fyrir kosningar og sú gagnrýni sem hefur komið fram á það er alveg réttmæt. Við teljum hins vegar að í ljósi þess að frumvarpið gerir ráð fyrir því að hægt sé að velja persónukjörið en líka að sleppa því og velja óbreytta leið sé ásættanlegt að skoða þetta mál betur hér í þinginu og flytja það fram og skoða vel í nefnd.

Málið er ágætlega unnið og það hefur Þorkell Helgason stærðfræðingur gert og mætir menn með honum, Ástráður Haraldsson hæstaréttarlögmaður, Eiríkur Tómasson prófessor og Gunnar Helgi Kristinsson prófessor og frumvarpið byggir á þeirri vinnu.

Í greinargerð frumvarpsins er dregið fram að mjög misjafnt er hvernig þetta er á milli landa. Persónukjör hefur mjög mikið vægi í Finnlandi, í Danmörku og Svíþjóð er aðeins veikari útgáfa og á Íslandi og í Noregi eru svokallaðir lokaðir flokkslistar, þannig að Norðurlöndin hafa valið mjög misjafnar leiðir.

Það er líka athyglisvert, sem fram kemur í greinargerðinni, að þegar Svíar breyttu lögunum og juku vægi persónukjörs dró úr áhuganum á að nýta sér það þannig að Svíar nýttu það minna og minna á milli kosninga. Það kom mér svolítið á óvart þegar ég kynnti mér það. Ég hélt að kjósendur mundu hafa meiri og meiri áhuga á persónukjörinu en það var ekki þannig í Svíþjóð. Þróunin í Danmörku var í hina áttina, þar óx þátttaka kjósenda í vali á frambjóðendum, allt frá 1990 hefur helmingur kjósenda nýtt sér þennan rétt þannig að mjög skrýtið er hversu ólík þróunin hefur verið milli Norðurlandaþjóðanna. Svíar misstu áhugann á milli kosninga en Danir fengu meiri og meiri áhuga á persónukjörinu. Ómögulegt er að segja hvernig það yrði hjá okkur.

Virðulegur forseti. Ég var nýlega á opnum borgarafundi Samstöðu um persónukjör sem haldinn var í Iðnó. Hann var merkilegur fyrir þær sakir að þar kom fram mjög mikil gagnrýni á Sjálfstæðisflokkinn varðandi þetta mál og að sumu leyti fannst mér sú gagnrýni ganga of langt. Ég benti þar á og ætla líka að gera það hér að þótt Sjálfstæðisflokkurinn sé ekki nú með húrrahróp yfir þessu máli hefur hann samt kannski gengið lengst flokkanna í prófkjörum, oft verið með opin prófkjör, sem er auðvitað eitt form af persónukjöri. Því er ekki hægt að líta á þessi mál frá einni hlið og ég vildi halda þessu til haga af því að nú hafa flokkarnir meira og minna ákveðið að fara í prófkjör fyrir þær kosningar, sem fram undan eru. Að vísu fæstir í opin prófkjör og ég er ekki viss um að nokkur hafi valið beint opið prófkjör heldur prófkjör þar sem flokksbundnir félagar taka þátt, en það er form af persónukjöri.

Við framsóknarmenn viljum gjarnan ganga lengra og færa persónukjörið úr flokkunum og inn í kjörklefann. Það eru samt líka gallar við það og það get ég alveg sagt þó að Framsóknarflokkurinn sé fylgjandi því og ég líka. Þingmenn í Finnlandi, sem hafa rætt persónukjörið sem þar er, hafa bent á að erfitt sé að henda reiður á kynjahlutfallinu. Þó að Finnar hafi verið mjög duglegir að koma konum inn á þingið hefur tilhneigingin verið sú að frægt fjölmiðlafólk, frægir íþróttakappar o.s.frv. hafa átt auðveldara með að komast að í persónukjöri því að það er fólk sem almenningur þekkir meira og kýs á listum flokkanna. Öðruvísi val fer væntanlega fram þegar persónukjörið fer inn í kjörklefana.

Af því að nú eru flokkarnir flestir komnir af stað í prófkjör vil ég taka upp eitt mál í þessari umræðu og það er sænska kerfið. Færa má rök fyrir því að óréttmætt sé að láta alla þingmenn fara í gegnum prófkjör sem svo eigi ekki að hafa neitt vægi heldur væru listarnir óraðaðir og með því væri verið að gefa prófkjörunum, sem eru í gangi, langt nef. Þess vegna velti ég fyrir mér sænsku leiðinni og ég heyrði að hv. þm. Árni Þór Sigurðsson var kannski á svipuðum slóðum og ég í þessu, hvort til álita komi í allsherjarnefnd, sem fær þetta mál til umfjöllunar, að skoða aðeins sænsku leiðina. Hún er þannig að þá hafa flokkarnir möguleika á að færa inn raðaða lista, sem koma þá væntanlega úr prófkjörum eða með einhverjum hætti úr flokkakerfinu, og síðan hafi kjósendur mun meira val en þeir hafa í dag á Íslandi gagnvart því að breyta þeirri röðun í kjörklefanum.

Í Svíþjóð er það t.d. þannig að ef 8% kjósenda setja einhvern einstakling á röðunarlista í 1. sæti eða krossa við hann þannig að hann fái sem mest vægi færist hann upp á listanum. Nú velta Svíar því fyrir sér að gera þetta kerfi enn þá kvikara, af því að þeir finna að minnkandi áhugi er á persónukjöri, væntanlega af því að fólk telur sig ekki hafa nógu mikil áhrif svona, og eru að velta því fyrir sér að færa þröskuldinn niður í 5%, þannig að einungis 5% kjósenda þurfi að kjósa viðkomandi aðila til að hann færist upp listann.

Ég vil líka koma að einu atriði í viðbót að og verð að viðurkenna það, hæstv. forseti, að þetta val truflar mig svolítið, þó að ég styðji þetta frumvarp og telji að valið sé af hinu góða í stöðunni sem erum nú í af því að prófkjörin eru byrjuð o.s.frv. Við skulum taka ímyndað dæmi um að einhverjir flokkar velji að hafa raðaða lista og vera í gamla kerfinu en aðrir velji óraðaða lista og fara inn í nýja kerfið. Þá spyr ég mig: Mun það valda því að kjósendur, sem eru væntanlega nýjungagjarnir — hver er ekki nýjungagjarn? Það eru mjög margir nýjungagjarnir — kjósi flokka sem bjóða upp á óraðaðan lista bara til þess að prófa það, bara til þess að fá þá tilfinningu, jafnvel flokk sem þeir hafa kannski ekkert sérstaklega mikinn áhuga á og mundu ekki kjósa ef allir listarnir væru óraðaðir eða allir listarnir væru raðaðir. Að þeir kysu viðkomandi lista bara af því að hann byði upp á þetta val. Þetta truflar mig svolítið, ég verð að viðurkenna það.

Á sama tíma eru til mótrök gagnvart því sem ég er að segja hér, virðulegur forseti, sem er danska kerfið. Í Danmörku er alltaf boðið upp á þetta val, þannig að þeir sem eru nýjungagjarnir geta valið þá flokka sem bjóða upp á valið.

Virðulegur forseti. Að sjálfsögðu er það rétt sem hér kom fram hjá hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni og hjá hv. þm. Geir H. Haarde, að þægilegast væri og skýrast ef löggjöfin væri eins einföld og hægt er að hafa hana og það sama gengi yfir alla flokka, það væri svona þægilegast. En í þeirri stöðu sem við erum tel ég eðlilegt að við bjóðum upp á þetta val og látum á það reyna hvort þingið vill ganga alla leið í því og samþykkja frumvarpið sem hér liggur fyrir.

Deilur hafa komið upp um lögfræðileg atriði, hvort þurfi tvo þriðju þingmanna til að samþykkja þetta mál til að það verði að veruleika. Ef það er reyndin — og ég tel að við þurfum að skoða þetta í nefnd, ekki ætla ég að kveða upp úr um það hér og nú hver hefur rétt fyrir sér í því — að einn þriðji þingsins geti stoppað málið af er málið væntanlega fallið af því að ég heyri að einn þingflokkur hér er ekki sáttur við málið, þannig að þá mundi það væntanlega ekki ná fram að ganga.

Svo vil ég að lokum, virðulegur forseti, nefna það, af því að ég nefndi hér áðan fundinn sem Samstaða um persónukjör hélt, að þar gaf hæstv. fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon — það var svo merkilegt að viðkomandi hæstv. ráðherra skyldi þora að gera það — tölulegt gildi á líkunum á því hvort málið færi í gegn eða ekki. Hæstv. ráðherra sagði að hann teldi 60% líkur á að málið færi í gegn. Ég ætla ekki að kveða upp úr um hvort það er rétt tala eða ekki en ég get svo sem nefnt sömu tölu, en við verðum að sjá hvernig þetta fer.

Kannski erum við alþingismenn ekki réttasta fólkið til þess að fjalla um þetta mál yfirleitt. Við erum alltaf svo upptekin af eigin stöðu, eins og er kannski bara mannlegt, og alveg er hægt að færa rök fyrir því að stjórnlagaþing, sem er fjær þessum daglega vettvangi sem stjórnmálamennirnir sjálfir eru á, ætti einmitt að fjalla um svona mál þannig að ef þetta mál fer ekki í gegn núna tel ég að það ætti að taka það fyrir á stjórnlagaþingi og stjórnlagaþingið ætti að koma með tillögur í þessum efnum af því að þar verða aðilar sem eru ekki uppteknir af eigin stöðu. Þar munu ekki verða neinir þingmenn, engir ráðherrar og ekki dómarar, alla vega samkvæmt því frumvarpi sem við höfum flutt, það væri kjörinn vettvangur til að skera úr um þetta, ef okkur tekst ekki að klára þetta nú hér í þinginu.