136. löggjafarþing — 95. fundur,  5. mars 2009.

sameining bráðamóttöku í Fossvogi og við Hringbraut.

[10:37]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Það tekur í að skera útgjöld til heilbrigðismála niður um 6.700 millj. kr. á ári. Ef við horfum á hina jákvæðu þætti þá er það svo að heilbrigðiskerfið allt saman beinir sjónum að því að skoða sjálfan grundvöllinn, leita leiða til að hagræða, fara betur með fjármuni, jafna kjörin jafnframt því sem reynt er að standa vörð um þjónustuna.

Ég þekki til þeirrar umræðu sem hv. þingmaður vekur máls á og ég vil þakka honum fyrir spurningarnar því þessi umræða er mjög mikilvæg. Það fyrirkomulag sem við höfum búið við á Landspítalanum – háskólasjúkrahúsi varðandi bráðamóttöku hefur verið með miklum ágætum og tryggt öryggi hjartasjúklinga mjög vel. Ég hef rætt þessi mál við stjórnendur sjúkrahússins og lagt áherslu á það sjónarmið að ekki verði ráðist í neinar þær kerfisbreytingar sem komi til með að ógna öryggi sjúklinga og út frá þeirri forsendu vinna stjórnendur Landspítalans – háskólasjúkrahúss einnig. Þeir eru að skoða þessi mál með þessi markmið að leiðarljósi. Ég legg áherslu á að um þetta og ýmsa aðra þætti eru mismunandi sjónarmið og við eigum að reyna að stuðla að því að um umdeildar ákvarðanir af þessu tagi fari fram rækileg og góð, djúp og fagleg umræða. Ég treysti því að svo verði því að ég tek undir þau sjónarmið lækna og hv. þingmanns að hér verður að gæta ýtrustu varúðar til að öryggi sjúklinga sé ekki teflt í tvísýnu á nokkurn hátt.