136. löggjafarþing — 95. fundur,  5. mars 2009.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

313. mál
[13:45]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég lýsi yfir mikilli ánægju með að við skulum afgreiða þetta mál. Hér er verið að samræma réttindi alþingismanna og annarra opinberra starfsmanna sem greiða í A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Ég vek athygli þingmanna á því að hér er efnislega verið að samþykkja það sem grænu flokkarnir lögðu til á síðasta ári, Framsóknarflokkur og Vinstri hreyfingin – grænt framboð. [Háreysti í þingsal.] Það er verið að samþykkja það sem þessir flokkar lögðu til, að færa þessi réttindi til samræmis við það sem gengur og gerist hjá öðrum opinberum starfsmönnum. Það er mjög ánægjulegt að við skulum hafa náð Samfylkingunni á okkar band í umræðunni því að þegar hún starfaði með Sjálfstæðisflokknum var hún ekki reiðubúin til að stíga þessi skref. (Gripið fram í: Birkir Jón …) Hér erum við að stíga mjög söguleg skref. Það er mikilvægt að þjóð og þing gangi í takt og við viljum — (Gripið fram í.) ég heyri að (Gripið fram í.) sumir þingmenn Samfylkingarinnar eiga erfitt undir þessari umræðu (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) en ég vil að lokum segja, frú forseti, að ég fagna þessari breytingu. Þetta er nákvæmlega í þeim anda sem Framsóknarflokkur (Forseti hringir.) og Vinstri grænir (Gripið fram í.) lögðu til fyrir nokkrum mánuðum og ég fagna því þrátt fyrir óp og köll samfylkingarmanna um að þeir hafi skipt um skoðun.

(Forseti (ÞBack): Ég bið hv. þingmenn að gefa þeim hv. þingmanni sem er í ræðustól tækifæri til að tala þannig að til heyrist.)