136. löggjafarþing — 95. fundur,  5. mars 2009.

hagsmunir Íslands í loftslagsmálum.

370. mál
[14:39]
Horfa

Helga Sigrún Harðardóttir (F):

Virðulegur forseti. Vegna orða hv. þm. Atla Gíslasonar fyrr í umræðunni um að ríkisstjórnin gæti að sjálfsögðu hagsmuna Íslendinga í hvívetna, og því sé umræðan hér í dag markleysa, ætti fáum að vera betur ljóst en þingmanninum að hagsmunir eru skilgreindir með dálítið mismunandi hætti innan flokkanna. Ég tel því að um óþarfaútúrsnúninga hafi verið að ræða og ómaklega vegið að 1. flutningsmanni tillögunnar, hv. þm. Siv Friðleifsdóttur.

Það kom mér líka á óvart að hv. þm. Helgi Hjörvar, eins vandaður og hann er, skuli bera saman epli og appelsínur og telja fólki trú um að hann sé að tala um banana þegar hann talar um losun gróðurhúsalofttegunda hérlendis í samanburði við aðrar þjóðir.

En hverjir eru þeir hagsmunir sem flutningsmenn tillögunnar horfa til? Aðstæður hér á landinu bláa valda því að okkur er lífsnauðsyn að halda í allar okkar auðlindir og nýta þær eins skynsamlega og hægt er. Ákvæðið sem sumum virðist ekkert sérstaklega umhugað um er ein þessara auðlinda. Hún má ekki fara forgörðum, enda tapast þá fjölmörg tækifæri til að byggja upp atvinnu og skapa störf.

Nú þegar er vegna efnahagsástandsins töluverð óvissa um framtíðaráform ýmissa sem lagt hafa í mikla vinnu og lagt fram mikið fjármagn í undirbúningsvinnu vegna álvera á Bakka við Húsavík og í Helguvík á Reykjanesi. Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því að menn vilji auka á þá óvissu og leggja þau áform að veði. Ef einhvern tímann var þörf er nú nauðsyn. 14.000 manns sem nú hafa misst atvinnu sína þurfa fjölbreytt störf sem stjórnvöld verða að leggja krafta í að skapa. Hér þarf að skapa raunveruleg verðmæti sem skapa okkur gjaldeyristekjur. Þeim verðmætum verður ekki sópað upp úr göturennunum og miðað við það traust sem alþjóðasamfélagið hefur á okkur eftir hörmungar haustsins og vetrarins er ljóst að kostir okkar hafa þrengst til mikilla muna.

Framsóknarmenn hafa um árabil setið undir hörðum áróðri umhverfisverndarsinna. Sá áróður náði alveg nýjum lægðum í aðdraganda síðustu kosninga þegar menn gengu hér um götur með skilti sem á voru letraðar hótanir gegn hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur, konunni sem um árabil hefur unnið hörðum höndum að atvinnuuppbyggingu og því að tryggja gjaldeyristekjur þjóðarinnar, enda skilar álframleiðsla orðið jafnmiklum ef ekki meiri tekjum en sjávarútvegur. Sá áróður reyndist runninn undan rifjum mjög ungra manna sem hrifust með stemningunni sem búin var til en höfðu gleymt að kynna sér málstaðinn til hlítar.

Um þessar mundir er ekki pláss fyrir slíkan áróður í umræðunni hérlendis. Nú þurfa allir að leggjast á eitt til að tryggja að auðlindir okkar verði nýttar skynsamlega. Þar gæti þurft að færa fórnir til að halda lífinu í fólki. Ég verð að leggja áherslu á að fyrir mína parta vil ég að fólkið njóti vafans. Með því er ég ekki að segja að allt verði lagt undir. Framsóknarmenn eru í eðli sínu náttúruverndarsinnar en þeir eru einnig hlynntir því að gæði landsins séu nýtt til að gera landið byggilegt. Við styðjum til að mynda svokallaða geiranálgun í alþjóðlegum loftslagssamningum. Við viljum taka virkan þátt í loftslagssamstarfi Sameinuðu þjóðanna og Norðurskautsráðsins. Við viljum líka að loftmengunarsáttmáli Alþjóðasiglingastofnunarinnar verði staðfestur og við viljum vinna markvisst að því að skipta yfir í endurnýjanlegt eða vistvænt eldsneyti, bæði í samgöngum og við fiskveiðar, draga úr útblástursmengun frá bílaflotanum um 50% á næstu 10 árum. Þar hafa framsóknarmenn nú þegar lagt þungt lóð á vogarskálarnar með stuðningi við þróun á vetnisnotkun og þar eru gríðarleg tækifæri fyrir vel menntaða og dugmikla þjóð. Má nefna rafmagn, lífdísil, etanól og metanól í því samhengi.

Virðulegur forseti. Hér er í húfi atvinnuþátttaka þúsunda einstaklinga á komandi árum og gjaldeyristekjur sem skipta gríðarlegu máli við þær aðstæður sem nú eru uppi hérlendis. Hagsmunir heildarinnar varðandi notkun á endurnýjanlegum orkugjöfum eru augljósir. Viðhorfum margra umhverfisverndarsinna má líkja við það að knattspyrnuklúbbi sem hefur með öflugu barna- og unglingastarfi tekist að þjálfa upp góða leikmenn væri svo bannað að tefla leikmönnum sínum fram af því að öðrum knattspyrnuklúbbum hefði ekki tekist eins vel upp með sitt uppeldi og ættu ekki eins góða leikmenn.

Virðulegur forseti. Ég skora á hæstv. umhverfisráðherra — og vona að þessi ræða mín komi fyrir augu hennar áður en henni verður svarað hér í næstu viku — að brjóta odd af oflæti sínu, horfa á heildarmyndina og leggjast á sveif með þeim sem vilja gæta hagsmuna Íslendinga í hvívetna. Það gerir enginn nema við sjálf.