136. löggjafarþing — 96. fundur,  6. mars 2009.

störf þingsins.

[10:43]
Horfa

Árni M. Mathiesen (S):

Herra forseti. Það er merkilegt hjá hv. þm. Guðbjarti Hannessyni, hæstv. forseta Alþingis, að vera í þessari baráttu á sama tíma og gildandi samgönguáætlun sem sitjandi hæstv. samgönguráðherra er að vinna eftir — ég veit ekki annað en hann hafi verið að vinna eftir henni af fullum heilindum, þar sem verið er að leggja upp með tvær mjög stórar samgönguframkvæmdir, annars vegar Vaðlaheiðargöngin og hins vegar Suðurlandsveginn. Þar er gert ráð fyrir því að það sé fjármagnað og greitt á sérstakan hátt.

Mér finnst þetta mjög sérstakt og velti því fyrir mér hver sé þá stefna Samfylkingarinnar í þessum málum og hvort það séu heilindi á bak við þær hugmyndir sem menn hafa verið að vinna að eða hvort menn séu núna á síðustu metrum þessa þings að hlaupast frá þeim hugmyndum sem uppi hafa verið. (GuðbH: Hver er afstaða ykkar?) Afstaða okkar er alveg skýr í þessum efnum. Við höfum verið að prófa þessi mál svo að hægt sé að fá frekari fjármuni inn í samgöngukerfið til þess að styrkja það og bæta og auka þannig öryggi þeirra sem eru í umferðinni. Hv. þm. — nú ruglast maður svolítið á þessu þegar maður ræðir við hæstv. forseta Alþingis, hvort maður á að kalla hann hæstvirtan eða háttvirtan í þessu samhengi — en við erum alla vega að vinna að þessu heils hugar og töldum að Samfylkingin væri að gera það líka. En það virðist vera, af þeim ummælum að dæma sem hér hafa fallið, að Samfylkingin vinni ekki heils hugar að þessum málum.