136. löggjafarþing — 96. fundur,  6. mars 2009.

virðisaukaskattur.

289. mál
[12:58]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Birki Jóni Jónssyni fyrir góða yfirferð í ræðu sinni. Ég staldraði við eitt í tölu hans, þegar hann talaði um og kallaði eftir því að aðrir stjórnmálaflokkar á Alþingi settu fram heildstæða stefnu í atvinnumálum.

Enginn flokkur talar skýrar um stefnu í atvinnumálum en Sjálfstæðisflokkurinn. Það er ljóst. Stefna okkar hefur verið alveg skýr og vandræðagangur núverandi ríkisstjórnar og síðustu ríkisstjórnar í atvinnumálum er ekki tilkomin af stefnuleysi Sjálfstæðisflokksins í þeim málaflokki nema síður sé. (Gripið fram í.)

Þetta speglast í vandræðagangi núverandi ríkisstjórnar þegar rætt er um álverið í Helguvík. Samfylkingin klofin og Vinstri grænir á móti. Þetta var auðvitað vandræðagangur í síðustu ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar þegar við sjálfstæðismenn áttum í mesta basli með að koma áfram uppbyggilegum málum í atvinnuvegum landsmanna.

Stefna okkar er byggð á raunhæfum lausnum. Hún er byggð á því að nýta náttúruauðlindir til lands og sjávar og byggja upp öfluga grunnstarfsemi sem getur síðan leitt af sér öfluga sprotastarfsemi til hliðar.

Við fylgjum þeirri stefnu en ekki þeim innihaldslausa fagurgala, sérstaklega vinstri flokkanna á þingi, þar sem fjallað er um að gera hitt og þetta án þess að skilgreina það nánar. Þannig að ég vil biðja hv. þm. Birki Jón Jónsson að leiðrétta (Forseti hringir.) þetta í ummælum sínum.