136. löggjafarþing — 96. fundur,  6. mars 2009.

virðisaukaskattur.

289. mál
[13:59]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Það er land hér stutt frá okkur sem heitir Færeyjar og 80–90% af tekjum þeirra eru af sjávarútvegi. Þeir breyttu á einum degi úr kvótakerfi eins og við höfum yfir í sóknardagakerfi, dagakerfi kalla þeir það. Þeir eru að lána íslensku þjóðinni peninga, þeir urðu fyrstir til að bjóða okkur peningalán þegar kerfið okkar hrundi og það hrundi að stærstum hluta út af því að við höfðum innleitt braskkerfi með óveiddan fisk í sjónum sem mátti leigja, selja og veðsetja.

Þeir eru ofan á, við erum undir. Við eigum að taka okkur þá til fyrirmyndar en ekki tala eins og sjávarútvegur þar sé ríkisstyrktur, svo er ekki. Sjávarútvegurinn þar hefur haldið kjörum þeirra uppi alla tíð og byggt upp eyjarnar og það er eins hjá okkur. Það er ekki fyrr en við fórum að braska með veiðiheimildir að íslenskt þjóðfélag fór til — ég þori ekki að segja það sem mér datt í hug og var komið fram á varir mínar. En íslenskur sjávarútvegur hefur verið ríkisstyrktur í 25 ár. Það er ekkert annað en ríkisstyrkur að hafa leyfi til að leigja, veðsetja og selja eins og raunin er.

Fyrir einu og hálfu ári var þessi ríkisstyrkur í raun þúsund milljarðar. Það var hægt að selja veiðiheimildir á Íslandi fyrir þúsund milljarða og þetta var gjöf til fárra útvalinna. Það er skrýtið fyrir flokk sem kennir sig við frelsi og gortar af því í tíma og ótíma að frelsi sé lausnin, (Forseti hringir.) frelsi einstaklingsins til athafna og gjörða. (Forseti hringir.) Það er ekki þannig, sjálfstæðismenn fara ekki með rétt mál þegar þeir halda því fram (Forseti hringir.) að Sjálfstæðisflokkurinn sé eini flokkurinn sem tali af alvöru (Forseti hringir.) um atvinnumál.

(Forseti (ÞBack): Ég bið hv. þingmenn um að virða tímamörk.)