136. löggjafarþing — 96. fundur,  6. mars 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[15:56]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst vegna þess sem hv. þingmaður sagði um að þing verði rofið 12. mars er nauðsynlegt að það komi fram að þó að 12. mars verði tilkynnt um kjördag 25. apríl getur þingið alveg starfað áfram, það er ekkert sem kemur í veg fyrir það og það veit hv. þingmaður.

Varðandi fyrirspurn hv. þingmanns og tilvitnanir í Össur Skarphéðinsson hæstv. ráðherra og að sem víðtækust samstaða skuli vera um stjórnarskrárbreytingar þá er það alveg satt og rétt að menn hafa lagt áherslu á það. En ég minni líka á að fordæmi er fyrir öðru, að stjórnarskrárbreytingar hafi verið lagðar fram af einstaka þingmönnum og ekki sem stjórnarfrumvarp. Er þess skemmst að minnast að árið 2007, ef ég man rétt, lögðu hv. þm. Geir H. Haarde og fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins, Jón Sigurðsson, fram frumvarp um breytingu á auðlindaákvæði stjórnarskrárinnar, svo því sé haldið til haga.

Ég vil líka halda því til haga að tvö af þeim fjórum ákvæðum sem eru í þessu frumvarpi um breytingar á stjórnarskránni sem fjalla um auðlindirnar annars vegar og aðferðir við að breyta stjórnarskránni hins vegar voru ítarlega ræddar í stjórnarskrárnefndinni 2005 og 2007 og ef ég man rétt líka á árinu 2000. Það er því ekki eins og þetta séu alveg ný mál sem eru að koma fyrir þingið.

Ég geri mér fulla grein fyrir að tíminn er knappur til að ræða þessi mál en engu að síður eru það áform ríkisstjórnarflokkanna og þeirra sem standa að frumvarpinu að það verði að lögum á þessu þingi, það er ætlan þeirra sem flytja málið. En auðvitað fer þetta til meðferðar í sérstakri nefnd sem (Forseti hringir.) ræður þá ferðinni og gangi mála en ég geri ráð fyrir að í þeirri nefnd verði meiri hluti fyrir afgreiðslu málsins á þessu þingi.