136. löggjafarþing — 97. fundur,  9. mars 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða o.fl.

321. mál
[18:19]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég fagna þessu svari hv. þingmanns vegna þess að mér virðist að við séum nokkurn veginn sammála miðað við þann málflutning sem hann hefur uppi hér um að hægt sé að flétta þessar leiðir saman. Fjármálaráðuneytið hefur látið það koma fram á fundum nefndarinnar að það telji að skoða þurfi þessa leið betur út frá mörgum vinklum og vill gjarnan fá tíma til þess og þess vegna er framhaldsnefndarálitið orðað eins og það er.

En ég skil hv. þm. Bjarna Benediktsson líka þannig að hann telji ekki skynsamlegt að láta þá breytingartillögu sem hér liggur fyrir á þingskjali 668 koma í staðinn fyrir hina leiðina sem frumvarpið gerir ráð fyrir. Hann virðist því ekki vera stuðningsmaður þeirrar breytingartillögu sem minni hluti efnahags- og skattanefndar, Pétur H. Blöndal, flytur. Að því leyti finnst mér málflutningur þeirra þingmanna Sjálfstæðisflokksins vera aðeins misvísandi svo ekki sé meira sagt. Ég fagna því auðvitað að ríkisstjórnin fái liðsmann í formannsframbjóðandanum í Sjálfstæðisflokknum í þessari umræðu og vona að það geti þá orðið nokkuð góð samstaða um frumvarpið eins og það liggur nú fyrir eftir 2. umr. og eftir umfjöllun í efnahags- og skattanefnd á milli 2. og 3. umr. og hann taki undir þau sjónarmið sem koma fram í framhaldsnefndaráliti meiri hlutans.