136. löggjafarþing — 98. fundur,  10. mars 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[15:00]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég vil í upphafi máls míns lýsa yfir mikilli ánægju með það að frumvarp til stjórnarskipunarlaga skuli vera komið á dagskrá þingsins. Við framsóknarmenn höfum lagt mikla áherslu á að fara í ákveðnar breytingar í kjölfar þess efnahagslega hruns sem varð í íslensku samfélagi, með öllum þeim afleiðingum sem það hafði í för með sér.

Þegar menn tala um, hæstv. forseti, að stjórnlagaþing sé furðulegt fyrirbrigði eða einstakt í sögunni vil ég nefna að slík þing hafa verið haldin víða um heim á ýmsum tímum sögunnar, oftar en ekki í kjölfar niðurbrots eða jafnvel byltinga í þjóðfélagsskipan og jafnvel í stjórnmálakreppum sem myndast hafa í kjölfarið.

Ég held að hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins verði að hlusta aðeins á hvað er að gerast í samfélaginu. Ýmislegt hefur gerst á undangengnum vikum og mánuðum. Niðurbrot hefur orðið í íslensku efnahagslífi sem skekur hvert einasta fyrirtæki og heimili í landinu. Fólk hefur krafist aðgerða og það sýndi sig á fjölmennasta flokksþingi sem haldið hefur verið í 92 ára sögu Framsóknarflokksins. Þar kom fram mjög rík krafa frá þeim 900 fulltrúum sem sátu það þing að gerðar yrðu breytingar á íslensku samfélagi í kjölfar þeirra hörmulegu atburða sem hafa gengið yfir okkur á undanförnum vikum og mánuðum.

Í ljósi þess sem gerst hefur þurfum við að taka ákveðna hluti til endurskoðunar. Við þurfum jafnvel að taka til endurskoðunar gildismat okkar og leikreglur í því samfélagi sem við viljum lifa í. Almenningur knúði fram ákveðnar breytingar sem stjórnmálamenn hlustuðu á endanum á. Meðal annars vegna þeirrar kröfu buðum við framsóknarmenn Samfylkingu og Vinstri hreyfingunni – grænu framboði að taka sæti í ríkisstjórn gegn því að við verðum þá ríkisstjórn vantrausti, fengi hún það á sig hér á vettvangi þingsins.

Það gerðum við á grundvelli málefna og þess að við vildum sjá breytingar. Sú krafa um breytingar sem við heyrðum utan úr samfélaginu var að skipt yrði um aðila innan ríkisstjórnarinnar. Menn vildu skipta um yfirstjórnir í þeim lykilstofnunum sem áttu að fylgjast með öllu regluverki í kringum fjármálakerfið og það hefur verið gert. Vegna þess einbeitta vilja sem endurspeglaðist á 900 manna flokksþingi okkar um að stjórnlagaþingi yrði komið á gerðum við framsóknarmenn kröfu um það, hæstv. forseti, að ríkisstjórnin og þessir stjórnmálaflokkar kæmu því máli í gegn fyrir kosningar vegna þess að við hefðum ekki neitt handfast um það eftir kosningar að menn fylgdu því máli eftir og jafnvel mundum við horfa upp á það að ekkert yrði af stjórnlagaþingi, sem á að setja nýjar reglur í íslenskt samfélag og skoða hlutina upp á nýtt.

Hæstv. forseti. Frá árinu 1946 hafa á Alþingi komið fram rúmlega 80 tillögur að breytingum á stjórnarskránni. Hvernig hefur þessum tillögum reitt af? Sjö hafa verið samþykktar, fjórum hefur verið vísað til ríkisstjórnarinnar og aðrar hafa ekki verið útræddar.

Því hlýtur að teljast fullreynt síðustu 65 árin eða svo að Alþingi Íslendinga og stjórnmálaflokkarnir, þá sérstaklega fjórflokkurinn sem hefur átt sæti hér á þingi á þessu árabili, geti náð samkomulagi um að fara í heildarendurskoðun á stjórnarskrá lýðveldisins þannig að árangur yrði af því. Ég tel það fullreynt og í ljósi þess að valdið kemur jú frá íslenskum almenningi á endanum tölum við framsóknarmenn fyrir því að færa eigi þetta vald til almennings. Að almenningur skipi fulltrúa sína á stjórnlagaþing og stjórnmálaflokkarnir komi þar ekki nærri.

Hvað er svona hrikalegt við það? Verður Sjálfstæðisflokkurinn að vera leiðandi í gerð á íslenskri stjórnarskrá? Er það skilyrði að einn stjórnmálaflokkur leiki lykilhlutverk í því? Er það svo að hér á Alþingi Íslendinga sitji 63 af frábærustu fulltrúum íslensku þjóðarinnar? Að sjálfsögðu ekki. Það er fullt af hæfileikaríku fólki í íslensku samfélagi sem hefur áhuga, getu og vilja til að koma að þessu verki.

Við skulum líka horfa í eigin barm. Það var á vakt okkar stjórnmálamannanna sem þeir hrikalegu atburðir, sem eru að ganga yfir íslenskt efnahagslíf, urðu. Að sjálfsögðu bera stjórnmálamenn einhvern hluta af ábyrgðinni. Við skulum ekki hlaupast undan því. Þannig að ég get vel sett mig í spor margra þeirra sem hafa krafist þess að stjórnlagaþingi yrði komið á laggirnar. Þess vegna er ég ánægður með að þetta mál skuli þó vera komið á dagskrá þingsins, þrátt fyrir að við höfum ætlað að ræða frekar um frumvarp til stjórnarskipunarlaga síðasta föstudag.

Hv. þm. Geir H. Haarde nefndi það að frumvarpið sem við framsóknarmenn lögðum fram væri ekki breyting á stjórnarskrá. Það er rangt. Í báðum frumvörpunum sem lögð hafa verið fram eru ákvæði um stundarsakir eins og vera ber ef stjórnlagaþing á að hafa alvöru umboð sem stjórnarskrárgjafi.

Með þeim breytingum sem við leggjum til erum við í raun og veru að færa þetta vald frá Alþingi til þjóðarinnar. Um það snýst kannski deilan í þessari umræðu, hvort þetta eigi að vera í höndum stjórnmálaflokkanna eða hvort — sérstaklega með tilliti til þeirra atburða sem hafa átt sér stað í íslensku samfélagi — við ætlum að treysta hæfileikaríku fólki í íslensku samfélagi til að koma að þessari vinnu.

Ég hugsa að deilan á milli þessara fjögurra flokka og Sjálfstæðisflokksins hér á þingi muni snúast um hvort þetta stjórnlagaþing eigi að vera ráðgefandi eða hvort það eigi að hafa endanlegt vald um væntanlega nýja stjórnarskrá, verði þetta að lögum.

Þó að sjálfstæðismenn hafi sagt á föstudaginn að þeir hafi viljað ræða mjög ítarlega um séreignarlífeyrissparnaðinn og það tengdist ekki þessu máli held ég einfaldlega að þar sé ekki alveg farið með rétt mál. Það tengdist að þetta mál var næst á dagskrá. Ég hef sterklega á tilfinningunni að Sjálfstæðisflokkurinn muni af alefli reyna að leggja stein í götu þess að af stjórnlagaþingi verði, þ.e. þeirri útfærslu sem flutningsmenn frumvarpsins hafa lagt til. Það hefur reyndar komið fram í umræðum að Sjálfstæðisflokkurinn er ekki mjög hrifinn af þeirri útfærslu sem við leggjum til hér.

Frú forseti. Margt kemur til álita ef stjórnlagaþing kemur saman. Við getum velt fyrir okkur í þessari umræðu hvaða álitamál það væru sem almenningur á þessu stjórnlagaþingi mundi ræða. Til að mynda kæmi til álita og umræðu um hlutverk þingsins og þrískiptingu ríkisvaldsins. Við sem höfum setið hér á Alþingi á undangengnum árum höfum mörg hver verið á því að það þyrfti að styrkja Alþingi Íslendinga og við höfum fundið fyrir því þegar minnihlutastjórn Samfylkingar og Vinstri grænna hefur verið að störfum að sú stjórn hefur þurft að leita miklu meira á náðir Alþingis í ákvarðanatöku sinni en fyrri ríkisstjórnir. Miklu meira og tala ég þar af eigin reynslu.

Ég finn það sem þingmaður að þingmenn hafa meiri áhrif á þau frumvörp sem við ræðum nú en oft áður. Þetta er mjög jákvæð breyting því (Gripið fram í.) framkvæmdarvaldið sækir umboð sitt til löggjafarvaldsins og á að starfa í umboði þess. Þingmenn eiga ekki að þurfa að hlusta á fyrirmæli frá ráðherrum á blaðamannafundum um hvað þeir eigi að gera.

Nú er það svo, þrátt fyrir blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar, að ráðherrar geta ekki fullyrt að þau mál sem þeir kynna fari í gegn. Það þarf a.m.k. að ræða það við þann flokk sem ver þá vantrausti og ef það er ekki gert er fullkomin óvissa um hvort viðkomandi þingmál fer í gegn. (Gripið fram í.)

Frú forseti. Við þurfum að endurskoða starfsvettvang okkar og ég hef talað fyrir því og finnst ekki veita af því í ljósi forsögunnar að stórefla þurfi eftirlitshlutverk Alþingis með framkvæmdarvaldinu. Þar þurfum við öll að leggjast á eitt. Eftirlitshlutverk þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu á að vera eitt mikilvægasta verkefni þingsins auk annarra löggjafarstarfa. Við þurfum að leggja miklu meiri áherslu á þetta brýna hlutverk þingsins en við höfum gert á síðustu árum. Ég vil segja hv. þm. Sturlu Böðvarssyni það til hróss að hann hefur og hafði í störfum sínum sem forseti þingsins lagt mikla áherslu á þetta sem ég nefndi hér.

Hvað fleira kemur til álita í vinnu þessa stjórnlagaþings ef það kemur saman og við náum frumvarpinu í gegn þrátt fyrir andstöðu sjálfstæðismanna? M.a. hvort við eigum að afnema þingræði og taka upp beina kosningu æðsta handhafa framkvæmdarvaldsins. Það yrði mjög róttæk breyting. En ég tel að við séum að upplifa þannig tíma í dag að í raun og veru komi allt til greina. Við þurfum að hugsa hlutina upp á nýtt og erum í raun og veru að stórendurbæta stjórnarskrá lýðveldisins, að ég tel, verði frumvarp okkar að lögum.

Nú á að auka valfrelsi kjósenda um fulltrúa á framboðslistum. Ákveðin krafa er í samfélaginu um að þeir sem kjósa stjórnmálaflokka eigi að hafa meira val um hvernig þeir listar eru skipaðir. Við mundum væntanlega með því taka upp aðra tegund af prófkjöri sem færi fram í kjörklefanum þar sem hinir raunverulegu kjósendur röðuðu upp á lista.

Svo eigum við að takmarka hámarkssetu þingmanna og ráðherra. Forseti Bandaríkjanna má einungis sitja tvö kjörtímabil. Er það eitthvað sem við ættum að skoða hér? Ég man að Kvennalistinn var með hámark á seturétti þingmanna sinna. Þetta er allt eitthvað sem yrði uppi á borðinu hjá stjórnlagaþinginu.

Eigum við að auka möguleika á þjóðaratkvæði og jafnvel á frumkvæði að löggjöf frá almenningi? Þjóðaratkvæðagreiðslur hafa ekki verið mikið brúkaðar hér á landi á undangengnum áratugum. Ákveðin krafa er í samfélaginu um að við aukum íbúalýðræðið og margir stjórnmálaflokkar sem eiga sæti á Alþingi hafa talað fyrir því. Þetta er eitthvað sem stjórnlagaþing gæti skoðað.

Hvernig tryggjum við gagnsæi stjórnkerfisins? Er ekki eitthvað sem hefur brugðist í íslensku samfélagi á undangengnum árum sem við þurfum að skoða? Er ekki eðlilegt að þeir sem sitja á stjórnlagaþinginu skoði þau mál? Er það þannig að við þingmenn eigum að ákveða hvernig við högum kjördæmaskipan? Væri ekki að mörgu leyti eðlilegra að aðrir véluðu um þau mál en við sem sitjum hér á hv. Alþingi? Ég held að það sé alveg sjónarmið í umræðunni að æskilegt væri að einhverjir aðrir en sitjandi þingmenn tækju ákvarðanir um hvernig kjördæmaskipaninni væri háttað.

Hæstv. forseti. Ég nefni hér mögulega kosti sem yrðu til umræðu á þessu stjórnlagaþingi og það er allt undir þegar kemur að því. Það er allt undir til að endurskoða leikreglur í íslensku samfélagi.

Ef Sjálfstæðisflokkurinn er ekki á því að menn þurfi að fara út í slíka vinnu og ef Sjálfstæðisflokkurinn er ekki reiðubúinn til þess að treysta almenningi, þar með töldum sérfræðingum í háskólasamfélaginu, viðskiptalífi og hinum venjulega manni til þess að ráðast í slíka vinnu þá held ég að Sjálfstæðisflokkurinn sé á dálitlum villigötum.

Og ef Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að berjast fyrir því að hugmynd okkar framsóknarmanna um stjórnlagaþing verði ekki að veruleika þá er ég reiðubúinn að funda hér fram á morgun, eins lengi og þarf. Því það verður engin trygging fyrir því að afloknum kosningum, þrátt fyrir allan fagurgala um að menn ætli að skoða málin eftir kosningar að af slíku stjórnlagaþingi yrði. Við leggjum höfuðáherslu á þetta mál og okkur þingmönnum Framsóknarflokksins á Alþingi ber skylda til að framfylgja þeim einbeitta vilja sem kom fram á fjölmennu flokksþingi okkar sem nýlega er afstaðið og það verður gert.

Með þessu er ég ekki að segja að það eigi að rífa þetta mál út úr þinginu. Ég tel að svona stórt mál þurfi mikla umræðu og ég veit að það verður mikil umræða um það. En ég bið menn þrátt fyrir að þeir tilheyri stærsta flokki á Alþingi að virða það að verulegur meiri hluti þingmanna á Alþingi Íslendinga vill ráðast í þessar breytingar og allir flokkar sem eiga setu hér á Alþingi hafa lýst yfir vilja til þess að afgreiða þetta mál. Og við skulum bera þá virðingu fyrir lýðræðinu að það er meiri hlutinn, við getum talað um í þessu tilviki hinn stóra meiri hluta, sem er mjög einbeittur í því að koma þessu máli áfram.

Frú forseti. Að lokum ætla ég að víkja ræðu minni að öðru máli sem brennur á okkur framsóknarmönnum. Við höfum mælt fyrir ákvæði um að náttúruauðlindir sem ekki eru háðar einkaeignarrétti séu þjóðareign. Það skal viðurkennt að það hefur verið mikill áherslumunur á milli framsóknarmanna og sjálfstæðismanna á undangengnum árum um þetta þar sem margir í þeirra röðum tala fyrir einkaeignarréttinum, til að mynda er varðar fiskveiðiauðlindina. Það væri rétt að fá það fram hjá hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins hvort þeir séu andvígir því að náttúruauðlindir sem ekki eru háðar einkaeignarrétti séu þjóðareign.

Ég býst við að í þeirri umræðu sem hér mun fara fram munum við ræða þetta. Og ég tel og við framsóknarmenn að það eigi að framfylgja því sem auðlindanefnd ákvað árið 2000, að fylgja því ákvæði eftir en við náðum ekki saman við Sjálfstæðisflokkinn, að mig minnir á árinu 2007, í þeim efnum.

Hæstv. forseti. Að lokum vil ég nefna að ég sé mikla hættu á því í samfélaginu ef það yrði niðurstaðan, sem ég vona að verði ekki, að þetta frumvarp yrði ekki afgreitt héðan frá Alþingi Íslendinga fyrir kosningar. Ég held að það sé mjög skýr og afdráttarlaus vilji fyrir því í samfélaginu að við förum í að endurskoða gildi okkar og leikreglur og allt umhverfi íslensks samfélags. Og þegar við horfum til þess gildismats sem var þegar menn dönsuðu hvað mest í kringum gullkálfinn — jafnvel sá sem hér stendur — þá er gildismatið þannig í íslensku atvinnulífi að þeir sem sýsluðu með fjármuni höfðu margfalda, jafnvel mörghundruðfalda fjármuni á við þá sem m.a. sinntu sjúklingum (BÁ: Hvernig tengist það stjórnarskránni?) og sinntu börnum og menntuðu þau.

Hv. þm. Birgir Ármannsson spyr hvernig það tengist stjórnarskránni. Það varð ákveðið rof í samfélaginu og það er krafa almennings að almenningur fái aðgang að því að móta skýrar leikreglur í íslensku samfélagi. Og ég trúi því ekki að hv. þm. Birgir Ármannsson ætli að koma hér upp og mæla því bót að menn í íslensku fjármálalífi greiddu sér mörg hundruð milljónir í laun á ári. (BÁ: Hvaða rugl er þetta?) Hvaða rugl, segir hv. þingmaður. (BÁ: Hvernig tengist það þessu máli?) Það er gríðarleg reiði í samfélaginu. (BÁ: Þú ert að rugla saman tveimur …) Ég er ekkert að rugla. Ég er að endurspegla (Forseti hringir.) það sem íslenskur almenningur hefur verið að mótmæla á undangengnum vikum og mánuðum. Ætlar Sjálfstæðisflokkurinn ekki að átta sig á því hversu skýr krafa er um að þetta mál nái fram að ganga hér á vettvangi þingsins? Það verður fróðlegt að sjá hvernig landsfundur Sjálfstæðisflokksins mun ræða þetta mál á fundi sínum. Ég trúi því ekki, miðað við hróp og köll þingmanna flokksins hér að allur landsfundurinn sé sammála því að þjóðin eigi ekki að ákvarða um þetta. Það hljóta að vera skiptar skoðanir í Sjálfstæðisflokknum um þetta. Reyndar er það svo að hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur tekið jákvætt í þær hugmyndir sem við höfum lagt hér fram. Þannig að Sjálfstæðisflokkurinn talar svo sem ekki einni röddu enda væri það mjög óeðlilegt í ljósi þeirra efnisatriða sem ég hef talið upp sem kæmu til álita á slíku stjórnlagaþingi.

Ég endurtek það enn og aftur að hér er um forgangsmál að ræða hjá okkur framsóknarmönnum. Við munum leggja nótt við dag til þess að koma þessu máli hér í gegn. Við erum mjög ánægðir með það samkomulag sem við höfum náð við aðra stjórnmálaflokka hér á þingi, Vinstri græna, Frjálslynda og Samfylkingu. Þetta mál er sett fram af fullum heilindum af hálfu þessara flokka og ef menn vilja bera saman það frumvarp sem við lögðum fram fyrr og það frumvarp sem nú liggur fyrir þá er það vissulega svo að hér er um ákveðna málamiðlun að ræða og það þarf ekkert að skammast sín fyrir það. Það er ákveðin útfærslubreyting á þessu.

En markmiðið er það sama, að íslenskur almenningur fái að koma að því með beinum hætti og hafi vald til þess að móta leikreglur í íslensku samfélagi. Móta þær í nýtt gildismat sem á að einkenna hið nýja Ísland vegna þess að við skulum viðurkenna að þjóðfélagið fór aðeins út af brautinni hvað varðar ákveðnar grundvallarforsendur í samfélaginu. Það getur vel verið að hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins muni halda því fram að við séum að blanda saman ólíkum hlutum og óskyldum hlutum. Við erum einfaldlega að tala um að í samfélaginu er rík krafa af margvíslegum tilefnum um að fara í þessa vinnu og við framsóknarmenn munum fylgja því mjög stíft eftir á vettvangi Alþingis.