136. löggjafarþing — 99. fundur,  11. mars 2009.

aðildarumsókn að ESB -- Icesave.

[12:16]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Herra forseti. Við ræðum hér nokkur risavaxin mál eins og Icesave, gjaldmiðilsmálin og Evrópumálin og ég ætla að reyna að halda mig við Evrópumálin.

Vegna orða hv. þm. Valgerðar Sverrisdóttur og hv. þm. Þórunnar Sveinbjarnardóttur vil ég taka það fram að stefna Sjálfstæðisflokksins í Evrópumálum er alveg skýr og hefur verið það. Stefnan er sú að það þjóni hagsmunum Íslands betur að standa utan Evrópusambandsins en að ganga í það. Þessi stefna hefur verið samþykkt á landsfundi Sjálfstæðisflokksins oftar en einu sinni og oftar en tvisvar.

Nú er landsfundur Sjálfstæðisflokksins fram undan og það kann að vera að stefnan breytist en við vitum ekki um það fyrr en að loknum fundinum. Þar verða teknar ákvarðanir á lýðræðislegum grundvelli. Ég hef sagt það sjálfur að ég er ekki hlynntur því að fara í aðildarviðræður og ganga til samninga við klúbb sem ég vil ekki vera aðili að. Ástæðan er sú að ég vil ekki framselja það vald sem Evrópusambandsaðild felur í sér. Ég vil heldur ekki að Íslendingar missi forræði yfir þeim auðlindum sem endurreisn samfélagsins á að byggjast á. Við ætlum að byggja þetta land aftur upp á auðlindunum okkar og ég tel mjög óskynsamlegt að gefa frá okkur forræðið yfir þeim.

Þar fyrir utan er samningsstaða Íslendinga þessa stundina afleit og framganga ESB-ríkja gagnvart Íslendingum, t.d. í Icesave-málinu, var Evrópusambandinu til skammar. Það er fullkominn misskilningur að halda að Evrópusambandið mundi taka á okkur með einhverjum silkihönskum þegar við komum með auðlindirnar okkar og færum þær fram á bakka í aðildarviðræðum við sambandið.

Ég vil síðan nefna það, úr því að hér er talað um Evrópustefnu Framsóknarflokksins, að hún er þess eðlis, og skilyrðin sem Framsóknarflokkurinn setur fyrir aðild Íslands að Evrópusambandinu eru (Forseti hringir.) þess eðlis — stefna Framsóknarflokksins er sú að Evrópusambandið (Forseti hringir.) gangi í Ísland en Ísland ekki í Evrópusambandið (Forseti hringir.) svo að það sé algjörlega á hreinu.