136. löggjafarþing — 100. fundur,  11. mars 2009.

atvinnuleysistryggingar.

376. mál
[18:00]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar.

Frumvarp þetta er byggt á tillögum samráðshóps félags- og tryggingamálaráðuneytis, Alþýðusambands Íslands, Bandalags háskólamanna, Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og Samtaka atvinnulífsins. Hlutverk þessa hóps var m.a. að fara yfir reynsluna af framkvæmd laganna um atvinnuleysistryggingar síðustu mánuði og þá sérstaklega bráðabirgðaákvæði laganna sem samþykkt voru á Alþingi í nóvember sl. Lítið reyndi á atvinnuleysistryggingakerfið frá þeim tíma er því var breytt sumarið 2006 fram til haustsins 2008 enda var skráð atvinnuleysi mjög lítið hér á landi á því tímabili. Hins vegar hefur reynt afar mikið á kerfið síðan í nóvember 2008 þegar atvinnuleysi fór að aukast hröðum skrefum. Skráð atvinnuleysi mældist 1,3% í september 2008 en var komið í 6,6% í lok janúar og var 8,2% að meðaltali nú í febrúar. Í lok dagsins í gær voru um 16.600 manns á skrá hjá Vinnumálastofnun og má gera ráð fyrir að um 20%, rúmlega 3.000 manns, séu enn í hlutastörfum.

Í frumvarpinu er lagt til að gildistími bráðabirgðaákvæðis laganna um heimildir til að greiða hlutfallslegar atvinnuleysisbætur á móti skertu starfshlutfalli launamanna verði framlengdur til 31. desember 2009. Þykir þessi heimild hafa sannað ágæti sitt sem mjög gott vinnumarkaðsúrræði þar sem starfsmenn eru áfram virkir á vinnumarkaði í a.m.k. 50% starfshlutfalli í stað þess e.t.v. að missa vinnuna að fullu. Í lok janúar fengu 1.279 manns greiddar atvinnuleysisbætur á grundvelli þessarar heimildar en af þeim voru um 38% í hálfu starfi. Fleiri konur en karlar voru í hálfu starf, 46% kvenna á móti 32% karla. Fleiri karlar voru í 75–80% starfshlutfalli, 35% karla og 22% kvenna. Meðalstarfshlutfall þeirra sem fengu greiddar hlutfallslegar atvinnuleysisbætur samhliða skertu starfshlutfalli var 66%. Enn fremur eru ekki lagðar til breytingar á skilyrðum sem sett voru í nóvember fyrir rétti til hlutabóta að öðru leyti en því að lagt er til að starf hlutaðeigandi þurfi að skerðast að lágmarki um 10% til að hann geti átt rétt á hlutabótum á grundvelli ákvæðisins. Ástæðan er sú að ekki þykir unnt að meta það svo að viðkomandi hafi minni skyldu til viðveru á vinnustað svo nokkru nemi ef skerðing starfshlutfalls er minni en 10%. Í frumvarpinu er lagt til að telji Vinnumálastofnun ástæðu til geti stofnunin óskað eftir nánari rökstuðningi hjá vinnuveitanda fyrir samdrætti í rekstri hans sem leiðir til þess að minnka þarf starfshlutfall starfsmanna. Er þá jafnframt miðað við að trúnaðarmaður eða fulltrúi starfsmanna þegar trúnaðarmaður er ekki fyrir hendi staðfesti þær upplýsingar eða gögn sem vinnuveitandi lætur Vinnumálastofnun í té. Í því skyni að auðvelda Vinnumálastofnun framkvæmd laganna er lagt til að skólum innan hins almenna menntakerfis og skólum á háskólastigi verði gert skylt að veita Vinnumálastofnun nauðsynlegar upplýsingar með sama hætti og öðrum þeim aðilum sem þegar eru taldir upp í lögunum. Jafnframt er lagt til að skýrt verði kveðið á um skyldu þeirra sem fá greiddar atvinnuleysisbætur til að upplýsa Vinnumálastofnun um breytingar sem kunna að verða á högum þeirra og annað það sem kann að hafa áhrif á rétt þeirra til bóta.

Virðulegi forseti. Í ljósi reynslunnar þótti ástæða til að skoða sérstaklega réttindi sjálfstætt starfandi einstaklinga innan kerfisins. Í framhaldi af þeirri yfirferð er í frumvarpinu lagt til að í skilningi laganna teljist þeir einir sjálfstætt starfandi einstaklingar sem starfa við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi. Aftur á móti verði litið á aðra þá sem starfa hjá eigin einkahlutafélögum, sameignarfélögum eða hlutafélögum sem launafólk. Er þetta einkum gert til einföldunar á kerfinu og til betra samræmis við þær upplýsingar sem liggja fyrir um skattskil þessara aðila hjá skattyfirvöldum.

Sjálfstætt starfandi einstaklingar hafa ávallt talist að fullu tryggðir innan atvinnuleysistryggingakerfisins hafi þeir greitt staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi og tryggingagjald mánaðarlega samfellt í 12 mánuði áður en þeir sækja um atvinnuleysisbætur. Það hefur sætt nokkurri gagnrýni að slíkt hafi verið raunin án tillits til þeirra fjárhæða sem þeir hafa greitt til skattyfirvalda og þar með í Atvinnuleysistryggingasjóð. Jafnframt hefur verið gagnrýnt að sjálfstætt starfandi einstaklingar sem greiða staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi og tryggingagjald einu sinni á ári til skattyfirvalda hafi ekki talist tryggðir innan kerfisins. Þá hafa komið fram athugasemdir um að sjálfstætt starfandi einstaklingar hafa ekki átt kost á að geyma áunninn rétt sinn til atvinnuleysistrygginga. Hefur slíkt leitt til þess að sumir sjálfstætt starfandi einstaklingar geta átt mjög skertan rétt til atvinnuleysisbóta og jafnframt ekki talist tryggðir innan kerfisins. Þetta á við hafi þeir verið tekjulausir í einhvern tíma áður en þeir sækja um atvinnuleysisbætur enda þótt þeir hafi haft tekjur af rekstrinum í mörg ár þar á undan.

Með hliðsjón af framangreindu er því í frumvarpinu lagt til að réttur sjálfstætt starfandi einstaklinga verði færður til betra samræmis við rétt launafólks innan atvinnuleysistryggingakerfisins þótt taka verði áfram tillit til þess að nokkur eðlismunur er talinn vera á starfstengdum aðstæðum þessara hópa. Er því um leið leitast við að mæta þeirri gagnrýni sem kerfið hefur sætt að þessu leyti. Þannig er gert ráð fyrir að sjálfstætt starfandi einstaklingar kunni, á sama hátt og launamenn, að vera hlutfallslega tryggðir innan atvinnuleysistryggingakerfisins og er þá miðað við viðmiðunarfjárhæðir fyrir reiknað endurgjald sem fjármálaráðherra gefur út árlega fyrir hverja starfsgrein á grundvelli laga um tekjuskatt. Jafnframt er gert ráð fyrir að þeir sem greiða til skattyfirvalda staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi og tryggingagjald einu sinni á ári kunni að teljast tryggðir innan atvinnuleysistryggingakerfisins að öðrum skilyrðum laganna uppfylltum. Þá er einnig gert ráð fyrir að áunninn réttur sjálfstætt starfandi einstaklinga geti geymst í allt að 24 mánuði í tilvikum er þeir greiða staðgreiðsluskatt af lægra endurgjaldi en þeir höfðu gert áður en reksturinn fór að dragast saman. Er þá haft í huga að samdráttur í rekstri er oft undanfari atvinnumissis sjálfstætt starfandi einstaklinga.

Lagt er til að gildistími bráðabirgðaákvæðis er gildir um réttindi sjálfstætt starfandi einstaklinga verði framlengdur til 31. desember 2009 líkt og gildistími bráðabirgðaákvæðis um hlutabæturnar sem ég minntist á áðan, enda þykir mikilvægt að sjálfstætt starfandi einstaklingar eigi þess kost að halda áfram að vera virkir á vinnumarkaði í einhverjum mæli þrátt fyrir verulegan samdrátt í starfsemi þeirra. Þó er lagt til að skýrar verði kveðið á um hvernig endurgjaldið fyrir tilfallandi verkefni kemur til frádráttar atvinnuleysisbótunum í ljósi þess að sjálfstætt starfandi einstaklingar kunna að fá mjög óreglulega greitt fyrir störf sín. Þannig er gert ráð fyrir að sé endurgjald fyrir tilfallandi verkefni greitt óreglulega eða jafnvel bara einu sinni skuli dreifa tekjunum yfir allt tímabilið sem verkefnið stóð yfir. Enn fremur er lagt til að komið verði meiri festu á framkvæmdina þannig að tekin verði af öll tvímæli um hlutverk Vinnumálastofnunar við mat á því hvað geti talist til tilfallandi verkefna í skilningi ákvæðisins sem og hvort raunverulega sé um verulegan samdrátt að ræða í starfsemi hlutaðeigandi.

Virðulegi forseti. Við stöndum nú frammi fyrir mikilli aukningu atvinnuleysis og okkur ber skylda til að sporna við þeirri þróun með öllum tiltækum ráðum. Líkt og ég vék að í upphafi hafa þær breytingar á lögunum um atvinnuleysistryggingar sem gerðar voru í nóvember sl. í tengslum við rétt einstaklinga til hlutabóta samfara minnkandi vinnu sannað gildi sitt svo um munar í þessum efnum. Einhverjar raddir hafa þó heyrst þar sem fullyrt er að auðvelt sé að misnota þetta kerfi. Ég verð að taka fram hér að mér þykir mjög miður ef misnotkun hefur verið raunin, auðvitað verður að fyrirbyggja misnotkun eins og mögulegt er. Mestu skiptir þó að kerfið þjóni vel heildinni og þeim markmiðum sem stefnt var að í upphafi. Við verðum fyrst og fremst að líta til tilgangs ákvæðisins sem er að auka möguleika á því að sem flestir séu virkir á vinnumarkaði í einhverjum mæli í stað þess að hætta allri þátttöku. Tel ég að vel hafi tekist til hvað það varðar. Í frumvarpinu er því lagt til að við fetum áfram þessa braut, a.m.k. til næstu áramóta þótt í frumvarpinu sé enn fremur gert ráð fyrir ákveðnum breytingum sem sumum hverjum er ætlað að sporna við hugsanlegri misnotkun.

Virðulegi forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. félags- og tryggingamálanefndar.