136. löggjafarþing — 100. fundur,  11. mars 2009.

heimild til samninga um álver í Helguvík.

394. mál
[20:31]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Hæstv. forseti. Fjárfestingarsamningurinn sem við ræðum er auðvitað mjög þarfur og nauðsynlegur til þess að liðka fyrir og hjálpa til við að byggt verði álver í Helguvík.

Það sem ég hef áhyggjur af varðandi álversuppbyggingu í Helguvík er raforkan sem þarf að fást til Helguvíkur. Það er full ástæða til þess í þeirri kreppu sem við búum við núna og það er ótti sem ekki er ástæðulaus. Orkufyrirtækin, hvort sem um er að ræða Landsvirkjun, Orkuveitu Reykjavíkur, Hitaveitu Suðurnesja eða Landsnet, eiga ekki eða hafa ekki aðgang að miklu fjármagni í dag til að sinna því sem þyrfti að gera, leggja línur og virkja þar sem til stendur að virkja. Peningana vantar.

Það sama má segja um fyrirtækið Norðurál. Fallandi álverð hefur verið í heiminum og það hefur bitnað á Norðuráli eins og öðrum fyrirtækjum en sem betur fer eru eigendur Norðuráls og þeir sem þar ráða ferð ekki af baki dottnir og trúa því og treysta að á einhverjum tímapunkti munum við horfa bjartari augum til framtíðar heldur en við höfum gert upp á síðkastið og kreppan verði ekki endalaus. En kreppan er kannski mesta áhyggjuefnið í dag fyrir okkur sem erum miklir stuðningsmenn framkvæmdanna við Helguvík og viljum að farið verði í þær. Það er engin spurning að jafnvel á annað þúsund manns mundu hafa atvinnu af því að byggja þetta upp og ef okkur vantar ekki atvinnu núna þá skil ég nú bara ekki upp eða niður í þessu. Ég hefði talið að það væri mikils virði bæði fyrir Suðurnesin og landið allt að fá inn fjármagn til þess að fara í svona framkvæmdir og aldrei meira en nú.

Það gleðilega við þetta mannvirki, álver og væntanlega þær virkjanir sem fara í gang, er að bróðurparturinn af því fólki sem mun vinna við þetta er íslenskt vinnuafl, jafnvel yfir 90%. Verkfræðingar og aðrir sem koma að hönnunarvinnu munu fá atvinnu. Þegar álverið er farið að vinna ál að fullu sköpum við 600 manns atvinnu eða jafnvel meira og öflum gjaldeyristekna. Ekki ætti að þurfa að fara í gegnum það núna hvers virði það er að hafa atvinnu og gjaldeyristekjur.

Hæstv. iðnaðarráðherra verður ekki mikið mærður hér og nú en samt aðeins. Það er alveg sjálfsagt að stuðla að tollafríðindum að einhverju leyti. En þegar verið er að tala um ríkisstyrk þá veit ég ekki betur en að í íslensku atvinnulífi sé ríkisstyrkur. Við erum með búvörusamninga þar sem við greiðum niður framleiðslu bænda, reyndar lítils háttar, ætli það séu ekki um 8 milljarðar í ár, sem okkur finnst sjálfsagt og er sjálfsagður hlutur að gera allra hluta vegna. Síðast en ekki síst erum við með gjafafiskveiðistjórnarkerfi þar sem mönnum hefur verið afhent auðlind í því formi. Það er ekkert annað en ríkisstyrkur þegar menn fá gefins fisk í sjónum sem þeir geta leigt, selt eða veðsett. Það er ekkert annað en ríkisstyrkur.

Skatttekjur, útsvarstekjur, virðisaukaskattstekjur fyrir ríkið — ríkið fær nú reyndar ekki útsvarstekjurnar, sveitarfélögin fá þær. Að fá hafnargjöld er mjög gott mál fyrir bæ eins og Reykjanesbæ og hjálpar því bæjarfélagi verulega.

En í allri þessari umræðu verður maður stundum dálítið hissa og af því að ég er nú sjómaður dettur manni stundum í hug þegar vinstri grænir tala um þessi mál að þeir séu áttavilltir, að kompásinn sé vitlaus eða eitthvað þess háttar. Þeir minnast ekkert á hvað eigi að gera og hvernig heldur tala í hringi eins og vitlausir áttavitar oft og tíðum. Við horfum upp á samninginn um Icesave-reikningana. Þeir töluðu í haust fyrir því að þeir yrðu ekki borgaðir og þeir töluðu fyrir því í haust að ekki yrði farið í samstarf við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Mér sýnist þeir vera jafnilla stemmdir varðandi álver og atvinnuuppbyggingu.

Þeir hika ekki við að setja 14–20 milljarða í tónlistarhús í Reykjavík, væntanlega hefði sama upphæð dugað fyrir línulögnum af Hellisheiði til Helguvíkur. Það er allt í lagi en það mun engum tekjum skila. Íslenska þjóðin mun bara hafa af því rekstrarkostnað þegar það verður komið í gang.

Þegar við ákveðum hvernig við ætlum að skipta þeim tekjum sem við fáum og þeim peningum sem við höfum úr að moða skiptir máli hvort við setjum þá í einhver tilgangslaus verkefni, sem engu munu skila nema kostnaði, eða stuðlum að atvinnuuppbyggingu sem skapar gjaldeyristekjur og atvinnu fyrir fólk. Eftir að hafa hlustað á umræður vinstri grænna finnst mér satt best að segja áttaviti þeirra vera vitlaus eða a.m.k. veruleg skekkja á honum.

Hvað varðar neðri hluta Þjórsár er auðvitað sjálfsagt að nýta þá orku sem þar er. Þar eru ódýrustu virkjanaframkvæmdirnar sem við getum farið í í dag. Við eigum hiklaust að gera það og okkur veitir ekki af því að reyna að nota þá orku sem hægt er að fá í þeim þremur virkjunum sem fyrirhugaðar eru í neðri hluta Þjórsár og nýta hana til atvinnuuppbyggingar og -sköpunar og gjaldeyristekna.

Þorlákshafnarbúar þurfa engu að kvíða. Á Hellisheiði og víðar er mikið af ónýttum auðlindum. Það ætti því að vera til nóg rafmagn finni þeir einhvern iðnað, hvort sem það er álver eða annars konar iðnaður, sem þarf mikla raforku. (MÁ: En Hvítá?) Það má vel virkja Hvítá. Ekki er óhugsandi að nýta þann möguleika eins og annað. (MÁ: En Jökulsá á Fjöllum?) Hv. þingmaður telur upp öll fljót sem hann man eftir. Það er sjálfsagt að nýta öll fallvötn til að skapa atvinnu og tekjur fyrir fólkið í landinu. Það er mín skoðun, fyrir svo utan, fyrst hv. þm. Mörður Árnason minnist á þetta, föllin í hafinu kringum Ísland. Ekki er langt í það að hægt verði að virkja þar verulega til raforkuframleiðslu. (MÁ: Af hverju byrjum við ekki á því?) Það er hægt að gera án efa á mörgum stöðum með miklum árangri. Hér er vindur líka sem má virkja með vindmyllum eins og gert er víða í Evrópu.

Þetta eru allt möguleikar sem hægt er að fara í ef menn vilja til að búa til og nýta þá orku sem er í kringum okkur og við eigum að gera það til að skapa fólki atvinnu og búa til gjaldeyristekjur. Þetta er það sem við þurfum að gera til að geta lifað í landinu, að nýta þau tækifæri sem gefast.

Það er rétt að frumvarp þetta hefði mátt koma fyrr fram. En betra er seint en aldrei. (Gripið fram í.) Það hefði betur komið fyrr fram eins og ég sagði áðan. Það hefði verið hið besta mál.

Hv. þm. Álfheiður Ingadóttir minntist á það að álver í Helguvík væri gæluverkefni. Ef það er gæluverkefni að standa að slíkri atvinnuuppbyggingu sem skapar tekjur og er til þess að skapa stöðugra atvinnulíf, þá skilur maður náttúrlega ekkert og kannski er ekki hægt að rökræða um svoleiðis þætti. Ef afsal ríkissjóðs í peningum er hugsanlega 1% af framkvæmd eða uppbyggingu, þá finnst manni það lítið miðað við það sem ég sagði áðan um tónlistarhús í Reykjavík eða annað.

Aðeins um orkuverð og leynd á orkuverði. Það má til sanns vegar færa að kannski sé rétt að gefa upp á hvaða verði orkan er seld. Það er nú svo að menn hafa nokkurn veginn vitað á hvaða verði orkan er seld til álvera, m.a. kom það fram fyrir tveim, þrem árum hvað verðið var í Brasilíu og á Íslandi. Það var gefið upp af einhverju dótturfyrirtæki í Brasilíu. Það er tvennt ólíkt að tala um orkuverð til garðyrkjubænda, sem á að vera hægt að kippa í liðinn með öðrum hætti, þó ekki sé verið að blanda því við orkuverð til stóriðju.

Þegar verið er að tala um ríkisstyrki er ekki hægt að sleppa því að ræða búvörusamninga og gjafakvótakerfi sem vinstri grænir ætla sér ekki að leiðrétta þrátt fyrir ýmis mannréttindabrot og annað sem því fylgir. Þeir ættu kannski að líta sér nær og hætta við að setja peninga í tónlistarhúsið og nota þá til þess að búa til gjaldeyristekjur og atvinnu. Það er nú einu sinni fjármálaráðherra sem getur ákveðið það hvort hann gefur upp orkuverð. Hann fer með hlut ríkisins í því.

Ég vil segja að lokum að framtíðin er björt í orkuiðnaði. Það á að vera hægt að virkja fleiri fallvötn og orku í iðrum jarðar. Á Suðurnesjum nýtum við aðeins 200 megavött af því sem mætti nýta. Menn tala um að hugsanlega sé á svæðinu yfir 2000 megavött sem megi nýta. Ég sé því ekki annað en að við eigum möguleika í framtíðinni. En við þurfum að hafa vilja, þor og kjark til að fara í það að nýta okkur auðlindirnar, bæði til sjávar og lands. Ég legg til að frumvarpið verði samþykkt. Við getum þá horft björtum augum á að farið verði á fulla ferð í að byggja upp álver í Helguvík.