136. löggjafarþing — 100. fundur,  11. mars 2009.

heimild til samninga um álver í Helguvík.

394. mál
[21:12]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég hef áhuga á því að vita hvaða álit hv. þingmaður, sem hefur svo sannarlega reynslu í þessum efnum, hefur á því hvort orðið gæti af álverinu á Bakka miðað við þær forsendur sem við höfum um framtíðina ef Helguvíkurálverið verður að veruleika. Ég tel að þingmaðurinn geti svarað þessu sjálf.

Ég vil svo segja þetta: Ég hef örugglega ekki komið þessu skýrt frá mér en hv. þingmaður taldi að ég hefði talað um óhagkvæm störf í álverum almennt. Ég sagði það ekki, um það má að sjálfsögðu deila. Það sem ég sagði var það að álver byggju til fá störf á orkueiningu sem til staðar væri á Íslandi. Við það get ég svo sannarlega staðið. Það var það sem ég meinti og ekki það að störfin væru óhagkvæm. Það er önnur umræða hvort störfin eru óhagkvæm, hvort álver eru yfir höfuð hagkvæm fyrir þjóðarbúið. Fjöldi hagfræðinga efast mjög um að svo sé. Enn hefur sú deila ekki verið að mínu viti leyst. Ég gerði þó smátilraun til að upplýsa einn þátt hennar, akkúrat út af þeirri fyrirspurn sem hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir vitnaði í þar sem hún spurði núverandi hæstv. iðnaðarráðherra um útflutningstekjur af áli. Það er þannig í hagfræðinni eftir allt saman að það sem skiptir þjóðhaginn mestu máli er hvað fer inn og hvað fer út. Og það er mismunurinn á því sem fer inn og fer út, alveg eins og var í merkantílismanum og í hagfræði alveg þangað til delluhagfræðin tók við, sem skiptir mestu máli. Það er líka þannig um álið.

Þegar spurt er um það sem ég gerði hér í vetur kemur í ljós — ég bað um viðmið í ferðaþjónustu — að ferðaþjónustan, hinn fátæklegi atvinnuvegur ferðaþjónusta, færir okkur miklu meira af innlendum þáttatekjum, 16% að meðaltali á síðustu 10 árum, en álverin sem eru 8%. Ef maður tekur bara rekstur (Forseti hringir.) fær maður svipaðar tölur, úr 2% í 5% 1998–2007 (Forseti hringir.) í álinu á móti 13–17% í ferðaþjónustunni.