136. löggjafarþing — 101. fundur,  12. mars 2009.

útboð í vegagerð.

[10:46]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. samgönguráðherra fyrir svörin, þetta er allt gott og blessað. En það breytir ekki því að þegar við skoðum málið liggur einfaldlega fyrir að síðasta tilboð var auglýst 23. febrúar. Nú er marsmánuður næstum hálfnaður og síðan þá hefur ekkert gerst. Mér finnst það vera mjög ámælisvert að ekki skuli vera settur meiri kraftur í að bjóða út þessi verk einmitt núna, bæði vegna þeirrar aðstöðu sem ég nefndi, vegna þess að við höfum fengið mjög góð tilboð, og líka í ljósi þess að mikil þörf er á því að efla atvinnusköpunina. Ríkisstjórnin kynnti átak í þeim efnum í síðustu viku en mér finnst það ekki vera þannig að eftir höfðinu dansi limirnir.

Það er ekki þannig að verið sé að reyna að hraða útboðum eins og kostur er. Tæknilega er ekkert því til fyrirstöðu að bjóða út miklu fleiri verk. Ég skora á hæstv. ráðherra að sjá til þess að Vegagerðin bjóði út strax í næstu viku einhver verk þannig að það svari þessari miklu eftirspurn eftir framkvæmdunum (Forseti hringir.) og við getum aukið þannig atvinnusköpun í landinu. Það er auðvitað það sem mestu máli skiptir og hæstv. samgönguráðherra hefur það í hendi sér.