136. löggjafarþing — 101. fundur,  12. mars 2009.

hagsmunir Íslands vegna Icesave-ábyrgðanna.

[11:39]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þau svör sem fengust hérna og ég tek undir með hv. þm. Árna Páli Árnasyni, það er mjög sérstakt að hlusta á fulltrúa Sjálfstæðisflokksins tala í þessari umræðu. Þeir geta ekki komið hingað upp og sagt eitthvað allt annað núna en fyrir stuttu síðan. Mér finnst það bara ekki boðlegt í svona stóru máli. Þeir ákváðu ásamt Samfylkingunni í síðustu ríkisstjórn og greiddu atkvæði með því (Gripið fram í: Nei.) að við ættum að borga, það væri hin pólitíska lausn og skynsamlegasta lausnin í málinu. Það er mjög skrýtið að þeir koma upp núna og telja að við eigum ekki að borga. Staðan er sú að allir þeir flokkar sem hafa verið í ríkisstjórn upp á síðkastið telja að þetta sé leiðin. Það er hægt að deila um þetta en þetta er sannleikurinn. Sjálfstæðisflokkur, Samfylking og Vinstri grænir eru á þessari skoðun, bæði síðasta ríkisstjórn og núverandi ríkisstjórn. Þar stendur málið.

Virðulegur forseti. Ég hef svolitlar áhyggjur af stöðu málsins af því að ég óttast að Bretarnir sýni okkur ekki nógu mikinn skilning, þ.e. stöðu mála hér. Ég er þó ánægð með að það er komin ný nefnd í þetta mál sem Svavar Gestsson veitir forustu. Hann þekkir íslenskt samfélag mjög vel og er afar öflugur á erlendum vettvangi, ég hef fylgst með því sjálf, þannig að vonandi gengur þetta vel.

Ég vil að lokum spyrja hæstv. fjármálaráðherra: Er eitthvað sem rekur sérstaklega á eftir því að niðurstaða náist hratt? Getur ráðherra eitthvað upplýst um tímaferlið? Er eitthvað sem rekur á eftir því að við náum niðurstöðu hratt? Ég held að það sé okkur í hag að ná ekki niðurstöðu of hratt af því að eftir því sem tíminn líður held ég að Bretarnir hljóti að skynja, (Forseti hringir.) þeir sem eru þarna með stærstu upphæðirnar, stöðu mála hér og sýna okkur meiri skilning (Forseti hringir.) á vaxtakjörum og öðru.