136. löggjafarþing — 101. fundur,  12. mars 2009.

hagsmunir Íslands vegna Icesave-ábyrgðanna.

[11:43]
Horfa

Geir H. Haarde (S) (ber af sér sakir):

Virðulegi forseti. Fyrr í umræðunni komu fram sakir af hálfu málshefjanda sem ég vil mótmæla. Málshefjandi gaf hér til kynna, eins og hún hefur gert við annað tækifæri, að ég hafi gefið þinginu rangar upplýsingar í skriflegu svari við fyrirspurn frá henni um einn þátt þessa máls.

Að sjálfsögðu hef ég ekki gefið þinginu rangar upplýsingar og ég mótmæli því að á mig sé borinn slíkur áburður. Ég mótmæli því. Fyrir honum er ekki minnsti fótur og ef hv. þm. Siv Friðleifsdóttir hefur einhvern áhuga á því að kanna þennan þátt málsins sérstaklega sem hún spurði þrjá ráðherra um og fékk hér sömu svör frá þeim öllum fyrir jólin á hún að kanna hvort það er einhver fótur yfirleitt fyrir því sem kallað hefur verið tilboð á síðustu stundu frá breska Fjármálaeftirlitinu um þetta mál gegn greiðslu 200 milljóna punda.

Hvað menn segja í örvæntingu sinni um miðja nótt við aðstæður sem þessar er eitt, og kannski ekki alltaf mikið mark á því takandi, en að koma síðan hér og bera á forsætisráðherrann að hann hafi sagt þinginu rangt frá er óboðlegt og ég sætti mig (Forseti hringir.) ekki við það.