136. löggjafarþing — 101. fundur,  12. mars 2009.

niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

397. mál
[12:18]
Horfa

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil segja hérna nokkur orð, fyrst það að þetta er ágætt mál sem hæstv. iðnaðarráðherra leggur fram. Við framsóknarmenn styðjum það með fyrirvörum um einhverjar hugsanlegar breytingar í nefnd eins og eðlilegt er.

Í framhaldi af þeirri ræðu sem hér var flutt af hv. þm. Jóni Bjarnasyni vil ég segja að ég held að hann hafi bara alls ekkert gert sér grein fyrir því hver staða hans er á Alþingi Íslendinga. Hann er einhver valdamesti maðurinn í þinginu. Hann er formaður þingflokks stjórnarflokks og öllu því sem hann segir hér getur hann komið til framkvæmda með því að beita sér innan síns flokks. Ef það verður ekki hlustað á hann í þingflokknum eða ef ríkisstjórnin vill ekkert gera með það sem hann setur hér fram er það mál út af fyrir sig. En hann getur ekki talað við neinn annan en þingflokkinn sinn og svo samstarfsflokkinn. Að beina orðum sínum hér til mín sem hef ekki verið iðnaðarráðherra í þrjú ár er náttúrlega bara til að brosa að því.

Hæstv. forseti. Ég nefnilega óttast, og hef sitthvað fyrir mér í því, að ríkisstjórnin eða þá sennilega síðasta ríkisstjórn hafi ekki staðið sig í því að leggja fjármagn til dreifikerfisins í samræmi við það sem lagt var upp með í upphafi þegar raforkulögin voru samþykkt og þegar þessi tilskipun Evrópusambandsins var innleidd á sínum tíma.

Það er þar sem ríkið getur haft áhrif. Það er alveg hægt að koma með aukafjárveitingu, ef ný ríkisstjórn vill beita sér fyrir því núna að lagfæra þetta hlýtur það að vera hægt. Það er spurning um vilja og ég trúi ekki öðru en að hv. þingmaður beiti sér á réttum stöðum fyrir því að þetta verði gert.

Þegar hann talar um að fyrirheit hafi verið gefið um að ríkið mundi tryggja jöfnuð í sambandi við raforkuverð er það bara ekki rétt. Ríkið getur ekki tryggt slíkan jöfnuð í frjálsu markaðskerfi. Hv. þingmaður fer ekki með rétt mál.

Því var haldið fram að ég hefði sem iðnaðarráðherra lofað hinu og þessu í sambandi við þessi lög. Það eina sem ég sagði var að það verður ekki nýr kostnaður til í kerfinu með kerfisbreytingunni. Honum er hins vegar raðað öðruvísi upp.

Hæstv. iðnaðarráðherra kom inn á það áðan að raforkuverð hækkaði því miður mest á einstaka bæjum þar sem það fyrirkomulag sem unnið var eftir var ekki verjandi. Ég er ekki að segja að neitt ólöglegt hafi gerst en í því kerfi sem var áður en þetta fyrirkomulag var tekið upp var ekkert gagnsæi og það var ýmislegt viðhaft sem stóðst ekki endurskoðun. Það stóðst ekki það gagnsæi sem við viljum hafa í kerfinu í dag.

Svo er náttúrlega stóra málið og það sem við Íslendingar hljótum að vera óskaplega stolt yfir, það hvernig okkur hefur tekist að leiða jarðvarmann um nánast allt land til að hita upp híbýli okkar. Það er nokkuð sem horft er til í öllum heiminum og þykir glæsilegt. Það er það líka. Hugmyndir eru uppi um það eða menn gera sér vonir um að það væri hægt að hita 95% húsnæðis upp með jarðvarma þegar því átaki er lokið sem stendur yfir, að leita að heitu vatni í landinu. Ég held að enginn geri sér vonir um að öll heimili geti verið hituð upp með heitu vatni en það er alltaf að finnast heitt vatn á nýjum stöðum. Það er mjög ánægjulegt.

Hæstv. forseti. Ég hef ekki svo mikið meira um þetta að segja. Ég vildi bara koma þessu að hérna í framhaldi af því sem kom fram hjá hv. formanni þingflokks Vinstri grænna í hans síðustu ræðu. Ég bara endurtek það fyrst ráðherrann er kominn að ég tel þetta gott mál, það er mjög kunnuglegt þeirri sem hér stendur og allt það sem hér kemur fram er nokkuð sem ég var meira og minna byrjuð að vinna að áður eins og hvað varðar að koma þeim til aðstoðar sem vilja bæta einangrun húsa. Það er verkefni sem hefur verið í gangi. Ég veit ekki hversu mikið það hefur verið notað en Íbúðalánasjóður var fyrir nokkrum árum tilbúinn til að veita sérstök lán í því skyni.

En við erum að verja heilmiklu fjármagni til þess að koma til móts við þá sem hita upp með rafmagni. Það má alltaf deila um það hvort þeir fjármunir eigi að vera hærri og meiri. Engu að síður er a.m.k. heilmikið til bóta það sem gert er af hálfu ríkisvaldsins í þeim efnum og litið á það sem ákveðinn byggðastyrk.