136. löggjafarþing — 103. fundur,  13. mars 2009.

Bjargráðasjóður.

413. mál
[11:26]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þarna kom skýringin á því af hverju hæstv. samgönguráðherra kom inn á þetta mál hér í umræðunni um Bjargráðasjóð, það var til þess að koma því í fjölmiðla. Það er svo sem ágætt, það er hægt að koma málum í fjölmiðla úr þessum ræðustól. Hins vegar gekk hæstv. samgönguráðherra allt of langt í sjálfumgleðinni, það er ekki hægt að koma hér, virðulegur forseti — það átti að vera búið að ljúka þessu máli fyrir mörgum árum — og berja sér á brjóst. Það er ekki við hæfi og það er sko engin lægð yfir landinu. Það er bara þannig að hæstv. ráðherra gekk of langt í sjálfumgleðinni. Við það geri ég athugasemd.

Ég er alveg viss um að allir þingmenn fagna því að það sjái fyrir endann á þessu máli. Auðvitað fagna því allir. Ég fagna því alveg sérstaklega, en andmæli því að hæstv. ráðherra láti í það skína að hann hafi unnið eitthvert sérstakt afrek hér. Þó að sumum ráðherrum finnist að mál komist ekki nógu hratt frá sér í fjölmiðla og þeir fái ekki nógu jákvæða umfjöllun þar verða hæstv. ráðherrar að gæta einhverrar sanngirni í þessari umræðu.

Sú er hér stendur hefur fylgst með bæði hv. þm. Sturlu Böðvarssyni og hæstv. samgönguráðherra Kristjáni L. Möller, þeir hafa báðir viljað vel í þessu máli en hér er ekki við hæfi að einhver einn komi upp og hreyki sér af þessu máli eins og hann hafi sjálfur bjargað því öllu í horn á síðustu sekúndu. Þetta er búið að vera erfitt mál, það hefur tekið allt of langan tíma, þetta er stórt byggðamál, landsmenn hafa beðið allt of lengi eftir þessu og menn ættu frekar að vera hógværir, hófstilltir og bljúgir en að berja sér svona á brjóst eins og hér var gert áðan.