136. löggjafarþing — 103. fundur,  13. mars 2009.

gjaldþrotaskipti o.fl.

281. mál
[13:19]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Ég tek til máls til að lýsa því yfir að við sjálfstæðismenn í nefndinni höfum tekið virkan þátt í þessum störfum og teljum að frumvarpið sé í harla góðum búningi að flestu leyti, eins og það kemur út úr nefndinni. Við höfum farið vel yfir þetta mál á vettvangi nefndarinnar. Mikil vinna hefur farið fram og ber að þakka það og í öllum meginatriðum hefur verið góð samstaða um afgreiðslu þessa máls í nefndinni.

Við sjálfstæðismenn gerðum fyrirvara við nefndarálitið sem lýtur fyrst og fremst að því að við höfum efasemdir um að rétt sé að fela sýslumönnum hlutverk umsjónarmanns með greiðsluaðlögun. Við teljum nauðsynlegt að áður en slík ákvörðun verður tekin verði skoðað betur hvernig þetta kemur til með að koma út praktískt séð. Það eru ákveðin rök, eins og hv. formaður nefndarinnar rakti í framsögu sinni hér áðan, fyrir því að færa þetta verkefni til sýslumanna en það kunna einnig að vera rök á móti því.

Við veltum t.d. fyrir okkur hvernig staða sýslumannsembættanna sé gagnvart því að taka að sér þetta verkefni því að auðvitað er talsverð óvissa um hversu viðamikið það verður. Það eru slíkir praktískir þættir sem við teljum að þurfi að skoða betur áður en frumvarpið verður afgreitt með þeirri breytingu sem lýtur að þessu.

Þess vegna kom fram í okkar máli, á þeim fundi nefndarinnar þar sem málið var tekið út, að við teldum rétt að málið yrði tekið aftur inn á milli 2. og 3. umr. til þess að skoða þennan þátt sérstaklega. Við munum óska eftir því að reynt verði að fá mat á því hvernig framkvæmdinni á þessu verði háttað. Að öðru leyti tek ég fram, eins og ég gerði í upphafi máls míns, að frumvarp þetta er til þess fallið að aðstoða mjög marga í greiðsluerfiðleikum og er þannig mjög jákvæð viðbrögð við því ástandi sem nú er í efnahags- og atvinnumálum. Við styðjum málið í öllum megindráttum en óskum eftir því að þetta tiltekna atriði verði skoðað nánar áður en málið hlýtur endanlega afgreiðslu hér í þinginu.