136. löggjafarþing — 104. fundur,  16. mars 2009.

endurreisn bankakerfisins.

[15:43]
Horfa

viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir að fá tækifæri til að ræða um endurreisn íslenska fjármálakerfisins enda er hún af augljósum ástæðum brýnasta viðfangsefnið á verkefnalista ráðuneytis míns. Heilbrigt og skilvirkt fjármálakerfi er frumforsenda þess að hér verði hægt að reka þróttmikið atvinnulíf á næstu árum og áratugum. Fyrsta skrefið í endurreisn bankanna er það mat á eignum og skuldum nýju bankanna sem nú er unnið að og hv. þingmaður minntist á.

Matinu er ætlað að endurspegla þau verðmæti sem felast í eignum nýju bankanna þegar til langs tíma er litið fremur en það verð sem fengist fyrir þær við þvingaða sölu við erfiðar markaðsaðstæður. Vonir standa til að niðurstöður eða a.m.k. fyrsta mat liggi fyrir um næstu mánaðamót. Ég tel alveg sjálfgefið að gera þinginu grein fyrir þessum niðurstöðum þegar þær eru tilbúnar. Að mati loknu munu skuldbindingar um greiðslu frá nýju bönkunum til gömlu bankanna koma í ljós. Þá verður kominn grunnur til að semja við kröfuhafa gömlu bankanna, m.a. um hugsanlega aðkomu þeirra að rekstri nýju bankanna. Um leið verður hægt að sjá hve mikið eigið fé íslenska ríkið þarf að leggja nýju bönkunum til. Í efnahagsáætlun stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins var gert ráð fyrir að eigið fjárframlag ríkisins yrði 385 milljarðar króna eins og þegar hefur komið fram

Nú virðist hins vegar allt útlit fyrir að talsvert lægri fjárhæð dugi þótt ekki liggi fyrir hver hún verður. Skýringin er fyrst og fremst sú að það stefnir í að bankarnir þrír verði talsvert minni en ráð var fyrir gert. Rétt er að hafa í huga að takist að byggja hér upp gott fjármálakerfi munu skattgreiðendur fá þessa fjármuni til baka síðar, t.d. við hugsanlega sölu bankanna. Aðkoma kröfuhafa að eignarhaldi nýju bankanna gæti einnig orðið til að lækka eiginfjárframlag ríkisins. Slík aðkoma væri að mínu mati mjög æskileg. Hún dregur úr líkum á deilum um mat á eignum og gæti liðkað fyrir tengslum íslensku bankanna við alþjóðafjármálakerfið auk þess að draga úr áhættu ríkisins.

Það er eitt af skilyrðunum fyrir því að íslenska fjármálakerfið verði starfhæft að vel takist til með uppgjör við þá sem eiga kröfur á fallna íslenska banka, það uppgjör þarf bæði að vera gagnsætt og sanngjarnt.

Samhliða því að þremur nýjum bönkum er komið á fót er unnið að endurskipulagningu annarra hluta íslenska fjármálakerfisins. Þeirri vinnu er ekki lokið en fyrir liggur m.a. að ríkið er reiðubúið að koma með eiginfjárframlag inn í sparisjóði sem uppfylla tiltekin skilyrði.

Um síðustu helgi varð ljóst að Straumur var kominn í þrot og skipaði Fjármálaeftirlitið skilanefnd vegna hans. Það var talið óhjákvæmilegt, m.a. vegna þess að bankinn starfaði að hluta sem viðskiptabanki þótt hann væri fyrst og fremst fjárfestingarbanki. Hlutverk þessarar skilanefndar verður fyrst og fremst að koma eignum bankans í verð með hagsmuni kröfuhafa að leiðarljósi en ekki stendur til að halda rekstri áfram á sama hátt og gert var með bankana sem féllu í október.

Á þessari stundu liggur ekki fyrir hve margar fjármálastofnanir munu starfa á Íslandi þegar um hægist og raunar ekki heldur hverjir eigendur þeirra verða. Það mun skýrast að mestu á næstu vikum og mánuðum. Einhver fækkun er líkleg þótt við hana verði sérstaklega að gæta að samkeppnissjónarmiðum. Aðalatriðið er þó að allt stefnir í að Ísland verði þegar upp er staðið komið með heilbrigt og vel fjármagnað bankakerfi sem getur vel staðið undir þörfum íslensks atvinnulífs. Að því leyti verðum við jafnvel fyrr en varir litin öfundaraugum af ýmsum nágrannaþjóðum okkar sem ekki hafa neyðst til að fara í viðlíka tiltekt í sínum fjármálakerfum þrátt fyrir verulega veikleika. Samhliða fyrrnefndri endurskipulagningu hefur verið hugað að eftirliti með fjármálageira framtíðarinnar, auk þess sem lagt hefur verið í mikla vinnu við að upplýsa hvað fór úrskeiðis í fjármálakerfinu sem hrundi.

Slíkt uppgjör við fortíðina er veigamikill liður í því að byggja hér upp nýtt fjármálakerfi sem sátt getur orðið um og náð getur að endurvinna þegar fram líða stundir traust landsmanna og erlendra aðila á íslenskum fjármálafyrirtækjum.

Fjármálaeftirlitið hefur fengið nýja stjórn og von er á nýjum forstjóra. Gagnsæi í störfum þess verður aukið ef frumvarp sem nú liggur fyrir þinginu verður að lögum. Jafnframt hefur starfsfólki fjölgað og unnið er með ráðgjöfum til að auka þekkingu. Um næstu mánaðamót er von á skýrslu Kaarlos Jännäris, fyrrverandi forstjóra fjármálaeftirlits Finnlands, um fjármálaeftirlit á Íslandi og tiltekna þætti fjármálalöggjafarinnar. Þá starfar nefnd um endurskoðun laga á fjármálamarkaði sem ætlunin er að skili af sér 15. næsta mánaðar en það bíður nýs þings að vinna úr þeim tillögum.

Fylgst er náið með breytingum á regluverki fjármálageirans erlendis, sérstaklega á vettvangi Evrópusambandsins enda ljóst að margvíslegar breytingar verða gerðar þar sem við munum einnig tileinka okkur. Sérstaklega er mikilvægt að huga að sérstöðu smárra ríkja (Forseti hringir.) eins og Íslands í því samhengi, það var eitt af því sem brást í gamla fjármálakerfinu.