136. löggjafarþing — 104. fundur,  16. mars 2009.

endurreisn bankakerfisins.

[16:11]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. viðskiptaráðherra fyrir innlegg hans í umræðuna og ég fagna því sérstaklega sem fram kom í máli hans að nú sé komið í ljós að það þurfi mun minna eigið fé frá ríkinu til endurreisnar bankakerfisins en áætlað var fyrir áramót. Það er mikið fagnaðarefni vegna þess að þetta þýðir minni áhættu fyrir skattgreiðendur í landinu.

Hér verður mönnum afar tíðrætt um að það þurfi að koma vel fram við kröfuhafana. Ég get í sjálfu sér tekið undir það en mínar áhyggjur eru samt miklu meiri hjá þeirri hlið málsins sem snýr að skattgreiðendum í landinu. Ég held að við eigum að gera minna af því að hafa áhyggjur af kröfuhöfunum í gamla bankakerfið og meiri áhyggjur af því hvernig við förum með skattféð við endurreisn bankakerfisins. Þar eru í húfi gríðarlegir fjármunir almennings í þessu landi.

Ég fagna því að það horfi til þess að við þurfum minna eigið fé en gætum samt að því um leið að bankakerfið verður að vera nægilega öflugt þegar upp er staðið til að geta sinnt grunnþörfum helstu fyrirtækjanna í landinu.

Það kom jafnframt fram hjá hæstv. ráðherra að mögulegt væri að erlendu kröfuhafarnir kæmu inn sem eignaraðilar. Mér finnst það jákvætt. Ég tek undir með honum um það að uppgjörið þarf að vera gagnsætt og sanngjarnt og ég kalla eftir því að þingið verði haft með í ráðum í þessu og fái frekari upplýsingar. Upplýsingunum er til að dreifa hjá ríkisstjórninni og ríkisstjórnin á að deila þeim með þinginu.

Það hefur ekki verið mikið rætt um sparisjóðina hér en tilgangur neyðarlaganna var að reyna að tryggja að þeir mundu ekki líka sogast með brimrótinu og lenda undir. Staða þeirra hefur verið í mikilli óvissu og það þarf að bregðast við henni. Ég hef áhyggjur af því hvernig fjármálakerfið verður fjármagnað vegna þess að augljóslega er gjaldeyrisjöfnuðurinn mjög skakkur hjá nýju bönkunum með margar erlendar eignir en illa fjármagnaðir eða ekkert fjármagnaðir í útlöndum og (Forseti hringir.) við því hlýtur að þurfa að bregðast. Að öðru leyti þakka ég ráðherranum fyrir svör hans og kalla eftir því að þingið verði betur upplýst um gang mála en verið hefur í vetur.