136. löggjafarþing — 105. fundur,  17. mars 2009.

aðgerðir til að bregðast við fjárhagsvanda íslenskra heimila og atvinnulífs.

419. mál
[19:14]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Nú eru komnar sex vikur síðan króginn fæddist, (BJJ: Króginn?) sem hv. þingmaður er guðfaðir að og hann stendur yfir vöggunni en króginn ætlar ekkert að vaxa.

Spurningin er hvort ekki sé kominn tími til (HSH: Það er búið að leggja hann á brjóst.) að koma fram með vantraust á ríkisstjórn sem ekki stendur sig betur en þetta. Því að út úr umræðunni hefur skinið í allan dag að ríkisstjórnin stendur sig ekki. Hún kemur ekki með nein mál.

Í greinargerðinni með frumvarpinu kemur líka fram mjög hörð gagnrýni. Það er mjög óvenjulegt af aðila sem styður ríkisstjórnina að svo hörð gagnrýni komi á prenti um hvað ríkisstjórnin stendur sig illa. Ríkisstjórnin er ekki einu sinn mætt hérna í umræðunni. Hún gefur Framsóknarflokknum langt nef með því að tala ekki einu sinni um þetta mál, sem var Framsóknarflokknum heilmikið mál. Ég hef farið í gegnum allar þessar tillögur mjög vendilega og málefnalega. En ríkisstjórnin er ekki mætt og ríkisstjórnarflokkarnir ekki heldur, ekki almennir þingmenn. Mér sýnist því að ríkisstjórnin sé að sýna Framsóknarflokknum mikla vanvirðingu og gefi honum langt nef, en þrátt fyrir það ætlar Framsóknarflokkurinn ekki að koma fram með vantrauststillögu.