136. löggjafarþing — 105. fundur,  17. mars 2009.

aðgerðir til að bregðast við fjárhagsvanda íslenskra heimila og atvinnulífs.

419. mál
[20:38]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Hér hafa menn talað af nokkurri íþrótt um þær tillögur sem lagðar hafa verið fram af öllum þingflokki Framsóknarflokksins. Ég get nú bara sagt, herra forseti, að ég vildi glaður vera framsóknarmaður í dag ef Framsóknarflokkurinn endurspeglast að öllu leyti í þeim tillögum sem hér liggja fyrir vegna þess að ég er sammála ákaflega mörgum þeirra.

Þegar ég skoða þessa þingsályktunartillögu sýnist mér reyndar að ekki sé mikil vík milli vina. Mér sýnist að örskammt sé á millum þessara tillagna, að minnsta kosti flestra þeirra, og margs þess sem ríkisstjórnin er að freista. Ég vil taka sérstaklega vel undir sumar tillögur hérna, eins og t.d. tillögu nr. 17 sem hv. þm. Grétar Mar Jónsson var, að mér fannst, að agnúast út í. Ég er þeirrar skoðunar að hér sé um að ræða tillögu sem er mjög í samhljómi við það sem ríkisstjórnin er að gera. Ríkisstjórnin hefur nýlega fengið til liðs við sig Evu Joly, sem er sérstaklega þekkt fyrir það að hafa upp á eignum og koma þeim í hendur þeirra yfirvalda sem snuðuð hafa verið. Þessi tillaga Framsóknarflokksins gengur út á það að þeim sem hafa falið eignir sínar í einhvers konar skjólum erlendis verði gefinn kostur á að gefa þær upp, borga af þeim réttmætan skatt og þeim verði þá gefnar upp sakir vegna undanskots. Þetta er svipuð leið og ýmsar aðrar þjóðir hafa farið. Þetta vil ég nú segja alveg sérstaklega vegna þess að þetta mál er mér hugleikið.

Að öðru leyti eru þarna nokkrar tillögur sem tengjast mínu ráðuneyti og þeim ráðuneytum sem ég veiti forstöðu núna. Mig langar sérstaklega að nefna tillögu nr. 14, þ.e. að stutt verði við rannsókna- og þróunarstarf. Þarna er um að ræða tillögu sem Framsóknarflokkurinn hefur flutt nýlega í ítarlega útfærðu formi. Ég tók til máls þá og lýsti yfir stuðningi við þá tillögu. Þarna er um að ræða tillögu um það að fyrirtækjum í nýsköpun verði gefinn kostur á að draga frá skattstofni sínum 200% af því sem þau leggja til rannsókna og þróunar. Ég tel að það sé kannski tiltölulega opinn tékki en ég er meira en til viðtals um að það verði gert gagnvart fyrirtækjum og að rannsókna- og þróunarstarf sé þá vel skilgreint þannig að menn viti nákvæmlega hvað um er að ræða.

Hv. þm. Birkir Jón Jónsson og fleiri sem hér hafa talað nefna sérstaklega nauðsyn á því að koma á fót samráðsvettvangi með útflutningsfyrirtækjum og atvinnugreinum. Mér finnst það fín tillaga. Ég hef að minnsta kosti sem iðnaðarráðherra freistað þess að gera þetta með óformlegum hætti. Ég hef haft samráð við alla helstu forustumenn í okkar stóru og sterku útflutningsfyrirtækjum á sviði nýsköpunar og hátækni og frá þeim hef ég þegið tillögur, sem ég hef lagt fram og ríkisstjórnin hefur samþykkt, sem eru alls ekki óskyldar þeirri útfærslu sem er hér á tillögu Framsóknarflokksins nr. 14. Ég tel að það gæti verið ágætasta hugmynd að formgera það óformlega samráð með einhverjum hætti.

Ég vil svo sérstaklega ræða um þá tillögu að ríkið verði bakhjarl vegna fjármögnunar útflutnings. Hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir nauðaþekkir þetta mál, ég veit ekki betur en að það hafi verið hún, eða þá forveri hennar úr sama flokki, sem kom hér í gegn lögum sem enn eru í gildi og ég man ekki alveg hvað heita. Þau eru sem sagt sérstök ábyrgðardeild á útflutningi og áttu að vera til þess að veita fyrirtækjum sem væru t.d. að skapa sér aukna markaðshlutdeild á sviði hátækniafurða — og sérstaklega minnist ég þess að úr þeirri umræðu voru fyrirtæki á borð við Marel, sem þá var að hasla sér völl í útflutningi á vogum, nefnd. Þessi lög íhugaði ríkisstjórnin í fyrra að fella úr gildi. Vegna þróunarinnar sem hefur orðið þá féll ég sem iðnaðarráðherra frá því. Lögin eru til. Ef þingið sammælist um að fara þessa leið eftir skoðun í viðkomandi nefnd þá er tækið fyrir hendi. Ég vildi bara vekja athygli hv. þingmanna á því.

Sú tillaga sem kannski er þess eðlis að um hana kynni að vera mestur styr, þ.e. tillagan sem er síðust í þessari 18 liða upptalningu hún er — þegar maður skoðar greinargerð með tillögunni þá er frá því greint, af þeim sem flytja þessa tillögu, að fram hafi komið ýmsar misjafnlega útfærðar tillögur af því að fella niður hluta af skuldsettum heimilum og einstaklingum. Í þessari tillögu er mælt sérstaklega fyrir einni útfærslu en vakin er athygli á því að þeir aðilar sem hafa gagnrýnt 20% tillögu Framsóknarflokksins hafi eigi að síður sett fram hugmyndir sem í raun gangi út á hið sama. Ef menn vildu reyna að ná saman um einhvers konar millileið þá sýnist mér að flutningsmennirnir séu að bjóða upp á það. Nú kann ég ekki að skoða hjörtun og nýrun í framsóknarmönnum en svona les ég þetta.

Ég segi eins og hæstv. fjármálaráðherra: Ég er nú þeirrar skoðunar að naumt skammtaða fjármuni ríkisins þurfi að nýta ákaflega vel og ég hef verið þeirrar skoðunar að þetta mundi kosta gríðarlega mikla fjármuni. Hv. þingmanna bíður að minnsta kosti það verk að sannfæra mig og aðra þingmenn, sem ekki hafa lýst fylgi við þessa skoðun, um að þeir hafi á röngu að standa. En ég hefði talið að þeir fjármunir sem við höfum úr að spila yrðu best nýttir til þess að koma þeim til aðstoðar sem verst hafa það.

Ég spyr t.d. hv. þm. Birki Jón Jónsson: Á ég sem hér stend og á enn þá húsnæðisskuldir, sem ég þarf að vísu að borga töluvert minna af eftir hinar ágætu skuldbreytingar sem hægt var að fara í hér um árið — ég hef nú þakkað Framsóknarflokknum fyrir það einu sinni héðan úr ræðustóli fyrir tveimur eða þremur árum — á ég að fara að fá peninga frá ríkinu? Mér finnst það ekki sanngjarnt. Ég verð bara að segja það að ég tel að þeir sem eru bjargálna — að það sé mjög hæpið að eyða fjármunum ríkisins til þess að fara í það verk.

Tvær tillögur eru hér merktar 2 og 3 sem ég tel í reynd að sé útfærslan af einni og sömu hugmyndinni. Við vitum það vel að mesta ógnin við jafnvægi og stöðugleika í hagkerfinu núna eru hin svokölluðu krónu- og jöklabréf. Það er þeirra vegna sem við höfum notað bæði axlabönd og belti, þ.e. við erum með vexti sem eru allt of háir og við erum með mjög ströng höft á flutningi á fjármagni út úr landinu. Leiðin til þess bæði að lækka vextina og að draga smám saman úr þessum gjaldeyrishöftum er auðvitað með einhverjum hætti að „neutralisera“ þessi bréf.

Ég get þá greint frá því að tilraunir eru í gangi til þess eins og ég er viss um að hæstv. fjármálaráðherra hefur gert. Það eru bæði tilraunir af hálfu stjórnvalda en líka af hálfu einkaaðila á markaði sem eru að reyna að finna leiðir til þess að fara svipaða leið og er í reynd bakhjarl 2. töluliðar, þar sem lagt er til að lífeyrissjóðum verði veitt heimild til gjaldeyrisviðskipta — og þegar maður skoðar greinargerðina með þeim tölulið þá kemur m.a. í ljós að hv. flutningsmenn eru að velta fyrir sér mjög svipuðum leiðum og ríkisstjórnin og aðilar á markaði eru að reyna að vinna að, þ.e. að skipta á eignum sem Íslendingar eða íslenskir aðilar eiga erlendis og fá í staðinn einhvers konar jöklabréf eða krónubréf eða taka yfir eignir erlendra aðila í krónum innan lands. Með því yrði stórlega dregið úr hættunni á þrýstingi á gjaldeyrisflutningi út úr landinu og þar með þrýstingi á krónuna.

Ég tel að þessar hugmyndir báðar séu jákvæðar en menn eru að reyna að fara þær. Ég verð hins vegar að segja það sem mína skoðun að ég tel að engin alvara hafi komið í þær tilraunir fyrr en skikk komst á Seðlabankann og ný yfirstjórn vegna þess að það er algjörlega nauðsynlegt til að það sé hægt að yfirstjórn og Seðlabankinn spili mjög rækilega með í því.

Að því er varðar fyrsta liðinn, sem er kannski það sem er bráðnauðsynlegast nákvæmlega á þessari stundu, þ.e. að lækka vexti, þá eru auðvitað allir sammála því. Eins og sakir standa verður það ekki gert nema í samræmi við það samkomulag sem við gerðum á sínum tíma við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. En sem betur fer kemur í ljós að Íslendingar eru, að minnsta kosti til þessa, að vinna samkvæmt áætlun og eru á réttum stað miðað við þá áætlun sem gerð var í haust. Það blasir við að verðbólga er að fara niður, meira að segja hraðar en menn ætluðu áður, krónan er aðeins að stabíliserast og við þessar aðstæður teljum við, ég tel það að minnsta kosti, að það sé rökrétt að vextir lækki mjög hratt héðan í frá.

Að endingu, herra forseti, verð ég að (Forseti hringir.) segja það að ég er grunntóni þessara tillagna samþykkur. Ég gæti þess vegna — eins og forseti hefur stundum verið — verið framsóknarmaður í kvöld.