136. löggjafarþing — 105. fundur,  17. mars 2009.

aðgerðir til að bregðast við fjárhagsvanda íslenskra heimila og atvinnulífs.

419. mál
[20:50]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ef það er einhver flensa í gangi er það flensa jákvæðni og ég sé líka að sú flensa er smitandi vegna þess að hv. þm. Grétar Mar Jónsson talar hér með allt öðrum hætti en hann hefur gert í sínum fyrri ræðum. Ég vona að það séu áhrif af því að hafa hlustað á mína jákvæðu ræðu.

Ég er þeirrar skoðunar að það sé sama hvernig kötturinn er á litinn, bara ef hann veiðir mýs. Og mér er sama hvort það eru framsóknarmenn eða frjálslyndir sem koma fram með tillögur, ef þær eru nýtilegar og hægt að nota þær til að hjálpa fólki sem á erfitt er ég til í að skoða það.

Ég er þeirrar skoðunar að margar af þessum tillögum séu jákvæðar og mér finnst sjálfum að margar af þeim séu alls ekki fjarskyldar því sem ríkisstjórnin hefur reynt að vinna að. Það sem hv. þingmaður hefur einkum sett hornin í í ræðum sínum í kvöld, og var að skamma mig fyrir, var að hafa ekki í reynd tekið harðar á 20% tillögu Framsóknarflokksins. Ég held að ég hafi það fram yfir hv. þm. Grétar Mar Jónsson að ég hef lesið bæði tillöguna og greinargerðina, og í greinargerðinni benda flutningsmennirnir á að menn hafi farið misjafnar leiðir til að reyna að ná því markmiði að hjálpa þeim sem skuldsettir eru og eiga mjög erfitt. Hv. flutningsmenn segja beinlínis að þeir lesi hugmyndir gagnrýnenda sinna með þeim hætti að í reynd séu þeir að vinna að hinu sama. Ég lít á það sem boð um útrétta sáttarhönd og ég tek alltaf í slíkar hendur. Jafnvel í lúkuna á hv. þm. Grétari Mar Jónssyni mundi ég taka ef mér byðist það, ef til ófriðar kæmi millum okkar sem auðvitað gerist aldrei.