136. löggjafarþing — 105. fundur,  17. mars 2009.

aðgerðir til að bregðast við fjárhagsvanda íslenskra heimila og atvinnulífs.

419. mál
[20:54]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Grétar Mar Jónsson hefur hlýtt hjarta. Það er á réttum stað og það slær með þeim sem eiga erfitt. Það held ég að gildi um flesta þingmenn. Ég held að ekki sé hægt að nálgast lausn á þeim vandamálum sem við glímum núna við sem þjóð frá einhverju flokkspólitísku sjónarhorni.

Ég held að í reynd séu lausnirnar sem hinir ýmsu stjórnmálaflokkar setja fram með ýmsum hætti mjög skyldar. Það er ekki til nein flóra lausna á þessum vanda. Lausnirnar felast í því að reyna að búa svo í haginn að vextir lækki. Lausnin felst í því að reyna að „afvikla“ með einhverjum hætti þessi krónubréf sem eru ógn við hagkerfið. (Gripið fram í: Afla meiri tekna.) Lausnin felst í því að afla meiri tekna og hér eru allnokkrar tillögur sem stuðla að því. Framsóknarflokkurinn hefur áður lagt til með svipuðum hætti og ég hef sem iðnaðarráðherra lagt til. Það hefur komið fram áður að í þessu efni er ég sammála hugmyndum Framsóknarflokksins og reyndar eru líka þingmenn úr öðrum flokkum sama sinnis.

Ég tel þess vegna að hv. þingmaður eigi að bregða sér í þann gír sem fer honum best, þ.e. jákvæða gírinn, og hætta þessu naggi út í t.d. iðnaðar- og utanríkisráðherra og taka upp þá fyrri iðju að tala með jákvæðum hætti um þann mann, einn þingmanna. Það er ekki svo oft sem iðnaðar- og utanríkisráðherra finnur stuðningsmenn í hópi stjórnarandstöðu. Ég bið hv. þm. Grétar Mar Jónsson: Ekki láta mig tapa þeim eina sem ég taldi að ég hefði.